Lífið

„Ég nenni ekki að hlusta á 7. októ­ber rökstuðninginn enn og aftur“

Lovísa Arnardóttir skrifar
Páll Óskar segir margar ástæður fyrir því að vísa Ísraelum úr keppni.
Páll Óskar segir margar ástæður fyrir því að vísa Ísraelum úr keppni. Vísir/Vilhelm og EPA

Stjórn Ríkisútvarpsins tekur ákvörðun á stjórnarfundi á fundi sínum sem hefst klukkan 15 hvort Ísland muni draga sig úr keppni í ár. Boðað hefur verið til samstöðufundar við RÚV klukkan hálf þrjú þar sem stjórn stofnunarinnar er hvött til að sniðganga Eurovision. Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, hvetur stjórnina til að taka ekki þátt. 

Fulltrúar evrópskra sjónvarpsstöðva samþykktu í síðustu viku að leyfa Ísraelum að taka þátt í Eurovision í Vín í Austurríki á næsta ári. Nokkur lönd tilkynntu þá þegar að þau myndu draga sig úr keppninni. Þeirra á meðal voru Hollendingar, Spánverjar, Írar og Slóvenar. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur fengið áskoranir víða að um að falla frá þátttöku.

„Við ætlum að hvetja þessa stjórn til þess að taka þá ákvörðun að senda okkur ekki út í þessa keppni. Margir eru búnir að senda út yfirlýsingar. Félag tónskálda og textahöfunda vill ekki að RÚV sendi lagahöfunda og flytjendur í þessa keppni. Þar sem allt er gert til þess að gera einum keppanda, einni keppnisþjóp hátt undir höfði og jafnvel veita henni forskot. Það er ekki keppni heldur svindl,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður, sem er einn skipuleggjenda samstöðufundarins.

Hann segir nýlegar reglubreytingar Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, á atkvæðagreiðslu sem kynntar voru fyrr í mánuðinum til dæmis hafa verið hannaðar til að halda Ísrael í keppni.

„Þessi viðbrögð þeirra hjá EBU, viðbrögð þeirra við því að Slóvenía, Spánn, Írland og Holland séu að sniðganga út af þessu. Viðbrögð þeirra við því er að óska þeim velfarnaðar og allt í gúddi. Þeir eru tilbúnir til að sleppa tökunum af þessum þjóðum, eins og Spáni, sem er ein af stóru þjóðunum, og Írlandi, sem hefur unnið oftast. Óska þeim bara velfarnaðar. Allt, allt gert til þess að halda Ísrael inni. Ég myndi ekki vilja vera íþróttamaður að taka þátt í einhverri íþróttakeppni og einn keppandi fær fjögurra sekúndna forskot áður en allir hinir fá að leggja af stað í langhlaupinu. Ég myndi ekki vilja það.“

Hann segir þetta eina af mörgum ástæðum þess að hann vill Ísrael úr keppni. Hann telur þetta tengjast því að Ísrael „dæli“ peningum í keppnina. Auk þess kosti Moroccan Oil keppnina að miklu leyti, en fyrirtækið er ísraelskt.

„Þar með hefur Ísrael ákveðið hreðjatak á keppninni og það er bara auðséð.“

Tvöföld skilaboð með brottvísun Rússa

Páll Óskar furðar sig einnig á því að Rússlandi hafi verið vísað úr keppni stuttu eftir að innrás þeirra hófst í Úkraínu en það sama gildi ekki um Ísrael sem hafi ráðist inn á Gasa eftir árásir Hamas 7. október.

„Þar með var ákveðið Pandórubox opnað,“ segir Páll Óskar.

Heimir Karlsson, þáttastjórnandi, spyr Pál Óskar hvort það sé raunverulega sambærilegt. Ísraelar hafi ráðist inn á Gasa eftir árás Hamas 7. október 2023 og einhverjir segi því að Ísraelar hafi því í raun og veru verið að verja sig.

„Ég nenni ekki að hlusta á sjöunda október rökstuðninginn enn og aftur. Því nenni ég ekki,“ segir Páll Óskar og að þessi deila eigi sér lengri sögu og það eigi Heimir að vita mætavel. Heimir segir þetta ekki sínar vangaveltur heldur fólksins sem velti þessu fyrir sér.

„Þetta er fyrirsláttur og smjörklípa. Ísrael hefur rétt á að verja sig fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag,“ segir Páll Óskar.

Fyrirsláttur að vísa í 7. október

Hann segir engan hafa þurft að gjalda fyrir neitt í þessari keppni fyrr en Rússlandi var sparkað út árið 2022 og Hvíta-Rússlandi í kjölfarið.

„Tvöföldu skilaboðin sem eru í gangi núna eru yfirgengileg.“

Páll Óskar segir þessi tvöföldu skilaboð ekki einu ástæðuna fyrir því að vísa ætti Ísrael úr keppni. EBU hefði til dæmis átt að bregðast harðar við framgöngu Ísraela í aðdraganda keppninnar og á meðan  henni stóð í fyrra. 

„Ísrael er eina landið sem fór af stað í meiriháttar „campaign“, eins og það heitir, sem náði út fyrir Evrópu. Þeir splæstu í auglýsingar, risastór ljósaskilti á Times Square í New York í Bandaríkjunum þar sem þau voru að hvetja fólk til þess að fara á netið að kjósa af því að einhverjir að keppa í einhverri keppni í Evrópu. Þessar risaauglýsingar á Times Square voru ekki borgaðar af sjónvarpsstöðinni Kan. Þetta er ójafn leikur,“ segir Páll Óskar.

EBU hefur brugðist við þessu með nýjum reglum þar sem til dæmis er tekið fram að þátttakendur megi ekki taka þátt í herferðum sem eru skipulagðar eða greiddar af þriðja aðila, eins og stjórnvöldum. Það geti skekkt atkvæðagreiðsluna.

Páll Óskar segir það líka fyrirslátt að segja að keppnin sé ekki pólitísk. Keppnin hafi verið stofnuð skömmu eftir seinni heimsstyrjöld.

„Það var pólitík. Þar sem tvær eða þrjár þjóðir koma saman til að sitja við sama borð bara til að segja hæ. Það er pólitík.“


Tengdar fréttir

Björk beinir skila­boðum til stjórnar RÚV

Tvísýnt er hvaða ákvörðun stjórn RÚV mun taka um þátttöku Íslands í Eurovision á fundi sínum næsta miðvikudag. Björk Guðmundsdóttir tekur undir með Páli Óskari Hjálmtýssyni og skorar á stjórn RÚV að draga sig úr keppninni á næsta ári.

„RÚV plís ekki vera gungur og aumingjar“

Stjórn Ríkisútvarpsins liggur nú undir feldi vegna þátttöku Íslands í Eurovision eftir að ákveðið var í gær að leyfa Ísraelum að taka þátt. Fjögur lönd hafa þegar tilkynnt að þau muni draga sig úr keppni. Páll Óskar Hjálmtýsson skorar á stjórnina að segja Ísland úr keppni.

„Skref í rétta átt“ en ekki útséð um þátttöku Íslands

Breytingar á reglum um atkvæðagreiðslu í Eurovision og kynningu laga eru skref í rétta átt en enn hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvort Ísland muni taka þátt eða ekki í keppninni á næsta ári. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svörum útvarpsstjóra til fréttastofu en Ísland hefur til 10. desember til að tilkynna af eða á um þátttöku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.