Fótbolti

Skrýtið að koma heim og mæta Blikum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Logi lék lengi vel með Víkingi og hefur ófáa baráttuna háð við Blika í gegnum tíðina.
Logi lék lengi vel með Víkingi og hefur ófáa baráttuna háð við Blika í gegnum tíðina. Vísir/Arnar

„Ég er mjög spenntur. Það er alltaf gaman að koma heim en smá skrýtið að spila við Blika í Evrópu,“ segir Logi Tómasson, leikmaður Samsunspor, sem sækir Breiðablik heim í Sambandsdeildinni á Laugardalsvöll í kvöld.

„Þegar ég sá að við fengum þá var ég spenntur. Strákarnir í liðinu voru líklega ekki eins spenntir og ég. Þeir eru margir leikirnir sem maður hefur spilað á móti þeim en það skiptir öllu fyrir okkur að vinna hann og vera áfram efstir í Sambandsdeildinni,“ segir Logi um Blikana.

Líkt og hann nefnir er tyrkneska liðið efst í Sambandsdeildinni, hefur unnið alla sína þrjá leiki og ekki enn fengið á sig mark. Breiðablik leitar aftur á móti fyrsta sigurs liðsins í keppninni.

Klippa: Logi klár í slaginn gegn Blikum

Samsunspor er þá í fjórða sæti tyrknesku deildarinnar og hefur gengið vel í vetur. Loga líður vel þar austurfrá.

„Mér líður vel og er að spila alla leiki. Það er mjög gott,“ segir Logi um lífið í Samsun. „Ég er að bæta mig sem leikmaður og einstaklingur. Ég hef þroskast mikið þarna.“

Hann segir sína menn þá þurfa að mæta af fullum krafti í leik kvöldsins í Laugardalnum.

„Við þurfum að vera klárir í baráttuna. Þeir munu mæta trylltir til leiks. Við þurfum að vera 100 prósent klárir.“

Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.

Leikur Breiðabliks og Samsunspor hefst klukkan 20:00 og er sýndur beint á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×