Körfubolti

Ný­liði mættur með lands­liðinu til Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Ragnar Ágústsson hefur stimplað sig inn í landsliðið með frammistöðu sinni fyrir Tindastól.
Ragnar Ágústsson hefur stimplað sig inn í landsliðið með frammistöðu sinni fyrir Tindastól. Vísir/Anton Brink

Einn nýliði er í íslenska körfuboltalandsliðinu sem nú er mætt til norðurhluta Ítalíu fyrir leikinn við heimamenn í bænum Tortona á fimmtudagskvöld.

Nýliðinn er Skagfirðingurinn Ragnar Ágústsson. Þessi 24 ára gamli leikmaður hefur að meðaltali skorað átta stig og tekið fimm fráköst í leik, með Tindastóli í Bónus-deildinni það sem af er leiktíð.

Leikurinn við Ítalíu er sá fyrsti hjá Íslandi í nýrri undankeppni fyrir HM 2027. Liðið tekur svo á móti Bretum á sunnudaginn og fjórða liðið í riðlinum er Litháen.

Craig Pederson og þjálfarateymi hans völdu 12 leikmenn í hópinn sem ferðaðist til Tortona í gær. Haukur Helgi Pálsson snýr aftur eftir að hafa misst af EM í haust vegna meiðsla. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson er einnig í hópnum núna en Almar Orri Atlason, Kári Jónsson og Kristinn Pálsson ekki með.

Leikurinn á fimmtudaginn hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma.

Landsliðshópur Íslands:

  • Elvar Friðriksson - Anwil Wloclawek - 84 leikir
  • Haukur Helgi Pálsson - Álftanes - 82
  • Hilmar Smári Henningsson - Jonava - 30
  • Jón Axel Guðmundsson - CB San Pablo Burgos - 45
  • Martin Hermannsson - Alba Berlin - 87
  • Orri Gunnarsson - Stjarnan - 21
  • Ragnar Ágústsson - Tindastóll - nýliði
  • Sigtryggur Arnar Björnsson - Tindastóll - 47
  • Styrmir Snær Þrastarson - CB Zamora - 30
  • Tryggvi Snær Hlinason - Bilbao Basket - 79
  • Þórir Guðmundur Þorbjarnarson - KR - 29
  • Ægir Þór Steinarsson - Stjarnan - 101



Fleiri fréttir

Sjá meira


×