Formúla 1

Verstappen vann í Las Vegas og minnkaði for­skot Norris

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Max Verstappen var kátur eftir kappaksturinn í Las Vegas í nótt og setti upp þessi gleraugu við hlið Lando Norris.
Max Verstappen var kátur eftir kappaksturinn í Las Vegas í nótt og setti upp þessi gleraugu við hlið Lando Norris. Getty/Mark Thompson

Max Verstappen vann sinn annan sigur í Las Vegas-kappakstrinum á ferlinum og hélt þar með litlum möguleikum sínum á titlinum lifandi. Spennan helst því áfram í heimsmeistarakeppni ökumanna í formúlu 1.

Lando Norris, sem leiðir baráttuna um heimsmeistaratitilinn, varð annar í kappakstrinum í nótt. 

42 stigum frá toppnum

Það þýðir að þegar aðeins tvær keppnir eru eftir af tímabilinu þá er Norris með þrjátíu stiga forskot á liðsfélaga sinn hjá McLaren, Oscar Piastri, og 42 stiga forskot á Verstappen. 58 stig eru í pottinum á síðustu tveimur vikum tímabilsins en næsta keppni verður í Katar.

Verstappen vann þennan kappakstur í nótt með tæplega 21 sekúndu forskoti eftir að Norris lenti í vandræðum með bílinn undir lokin. Það dugði þó ekki til að George Russell, ökumaður Mercedes, næði að stela öðru sætinu af Norris.

Endaði síðasta á undanum Norris í ágúst

Piastri varð að sætta sig við fjórða sætið en hann var langt á eftir. Hann hefur nú ekki endað á undan liðsfélaga sínum Norris síðan í hollenska kappakstrinum í lok ágúst.

Forskot Norris þýðir þó að hann getur tryggt sér titilinn í kappakstrinum í Katar í næstu viku ef forskot hans er 25 stig eða meira að þeim kappakstri loknum. Sigur Verstappens í syndaborginni heldur óvæntum titilvonum hans lifandi í að minnsta kosti eina viku í viðbót.

Verstappen virtist úr leik eftir sumarfríið en hefur barist aftur inn í titilbaráttuna með einum magnaðasta endaspretti sem hefur sést í Formúlu 1. Hollendingurinn hefur nú unnið fjóra af sjö kappökstrum eftir sumarfríið.

Komst fram úr á fyrsta hring

Verstappen náði yfirhöndinni í keppninni á laugardagskvöldið strax á fyrsta hring. Norris hafði byrjað á ráspól og færði sig ákveðið yfir brautina til að halda Red Bull-ökumanninum og ríkjandi fjórfalda heimsmeistaranum fyrir aftan sig, en fór svo of djúpt inn í fyrstu beygju.

Það gerði Verstappen kleift að komast fram úr Norris í næstu beygju og Russell náði einnig að smeygja sér fram úr honum í annað sætið. Eftir það virtist forysta Verstappen aldrei vera í hættu.

McLaren-liðið var bjartsýnt á að ná Verstappen á lokahringjunum, en vandamál með bílinn seint í keppninni varð til þess að Norris dróst verulega aftur úr á lokasprettinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×