Handbolti

Landsliðskonan dæmd í eins leiks bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thea Imani Sturludóttir fær lengri tíma til að jafna sig eftir HM.
Thea Imani Sturludóttir fær lengri tíma til að jafna sig eftir HM. Vísir/Anton Brink

Thea Imani Sturludóttir, leikmaður Íslandsmeistara Vals í Olís-deild kvenna í handbolta, var í dag dæmd í eins leiks bann af Aganefnd Handknattleikssambands Íslands.

Thea Imani er þessa dagana að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramót með íslenska landsliðinu en Olís-deildin er komin í frí þangað til um miðjan desember.

Thea hlaut útilokun með skýrslu vegna sérstaklega ódrengilegrar hegðunar í leik Vals og ÍR í Olís-deild kvenna þann 12. nóvember 2025. Valur tapaði þeim leik með einu marki, 24-25.

Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 1. mgr. 11. sömu reglugerðar.

Thea fékk rauða spjaldið þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum.

Valur skoraði jöfnunarmark þegar tólf sekúndur voru eftir og Thea hljóp í gegnum miðjuhringinn og truflaði hraða miðju ÍR. Hún fékk fyrir vikið rautt spjald fyrir og ÍR fékk vítakast en úr því skoraði Sara Dögg Hjaltadóttir sigurmarkið.

Thea missir af næsta leik Valsliðsins sem er á móti Stjörnunni 13. desember næstkomandi. Þangað til spilar hún vonandi sem flesta leiki með íslenska A-landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×