Handbolti

Haukar einir á toppnum og ÍR rétt missti af fyrsta sigrinum

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Árni Heimisson og félagar fögnuðu afar öruggum sigri í kvöld.
Dagur Árni Heimisson og félagar fögnuðu afar öruggum sigri í kvöld. vísir/Anton

Haukar eru einir á toppi Olís-deildar karla í handbolta eftir 35-30 útisigur gegn Selfossi í kvöld. Valsmenn eru tveimur stigum á eftir þeim, eftir 33-24 sigur gegn HK í Kórnum, en Stjarnan og ÍR gerðu 27-27 jafntefli í Garðabæ.

Haukar eru nú með 16 stig eftir 10 leiki en Afturelding getur náð þeim að stigum með sigri gegn Þór á Akureyri annað kvöld. Selfoss er hins vegar í næstneðsta sæti með fimm stig.

Valsmenn eru með 14 stig í 2. sæti en HK í 9. sæti með átta stig, líkt og reyndar Stjarnan og Fram. ÍR-ingar eru áfram neðstir og án sigurs en nú með þrjú stig.

Benedikt Marinó Herdísarson kom í veg fyrir fyrsta sigur ÍR þegar hann skoraði úr vítakasti í lok leiks í Garðabænum í kvöld. Hann endaði markahæstur hjá Stjörnunni með sjö mörk en Jökull Blöndal Björnsson varð markahæstur hjá ÍR með átta mörk.

Freyr Aronsson var markahæstur Hauka á Selfossi með tíu mörk og Hergeir Grímsson skoraði sjö á sínum gamla heimavelli. Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfoss með sex mörk.

Í Kórnum var Gunnar Róbertsson svo markahæstur með átta mörk og Arnór Snær Óskarsson skoraði sjö en hjá HK-ingum var Haukur Ingi Hauksson markahæstur með fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×