Innlent

Starfs­maður Múlaborgar játar sök að hluta

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá leikskólanum Múlaborg.
Frá leikskólanum Múlaborg. Vísir/Vilhelm

Starfsmaður leikskólans Múlaborgar sem sætir ákæru fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn einu barni í tveimur aðskildum tilvikum játar sök að hluta.

Ríkisútvarpið hefur þetta eftir skriflegu svari Sigurðar Ólafssonar saksóknara. Þar kemur fram að maðurinn neiti einnig sök að hluta. Mál tveggja annarra barna hafi einnig verið send á ákærusvið en felld niður. Greint hefur verið frá því að hann hafi verið grunaður um brot gegn fleiri en tíu börnum.

Í ákæru sem fréttastofa hefur undir höndum segir að maðurinn sé ákærður fyrir að hafa tvisvar sinnum á árinu 2025 á leikskólanum haft önnur kynferðismök en samræði við stúlku.

Hann hafi misnotaði freklega yfirburðarstöðu sína gagnvart stúlkunni, brugðist trausti hennar og trúnaði sem starfsmaður leikskólans og í annað skiptið jafnframt notfært sér að þannig var ástatt um stúlkuna að hún gat ekki spornað við verknaðnum sökum svefndrunga.

Þá segir í ákærunni að fyrir hönd stúlkunnar sé maðurinn krafinn um miskabætur að fjárhæð sjö milljóna króna.

Ákæra á hendur manninum var þingfest í gær. Þinghöld í málinu eru háð fyrir luktum dyrum og því liggur afstaða hans til sakarefnis ekki fyrir að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×