Sport

Mætti í vinnuna eins og ekkert sé 48 tímum eftir heims­met í 160 km hlaupi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitriona Jennings er Ólympíufari og hefur keppt í hlaupum nær alla tíð. Nú einbeitir hún sér að lengri hlaupum.
Caitriona Jennings er Ólympíufari og hefur keppt í hlaupum nær alla tíð. Nú einbeitir hún sér að lengri hlaupum. Getty/Christopher Wong

Írska íþróttakonan Caitriona Jennings setti heimsmet í hundrað mílna hlaupi um helgina þegar hún hljóp þessa 180 kílómetra á tólf klukkustundum, 37 mínútum og fjórum sekúndum.

Jennings bætti gamla metið um meira en fimm mínútur en metið setti hún í hundrað mílu hlaupinu í Illinois í Bandaríkjunum. Ótrúlegt en satt var þetta fyrsta keppni hennar í þessari vegalengd en hún átti einu sinni heimsmetið í fimmtíu mílu hlaupi sem hún missti reyndar þessa sömu helgi.

Hún hélt fullkomnum hraða mestallt hundrað mílna hlaupið og hljóp hverja mílu á sjö mínútum og 26 sekúndum. Hún hægði aðeins á sér á lokasprettinum en náði að halda sér undir heimsmetshraða og endaði í fjórða sæti í heildina.

Írska ríkisútvarpið ákvað að heilsa upp á Jennings en hún var þá mætt í vinnuna eins og ekkert sé. Hún hafði þá þegar flogið heim til Írlands frá Bandaríkjunum með næturflugi.

„Endurheimtin hefur bara gengið vetur en í bjóst við. Mér líður vel,“ sagði Caitriona Jennings þegar hún var mætt til vinnu aðeins 48 klukkustundum eftir að hafa hlaupið í meira en tólf klukkutíma og sett nýtt heimsmet.

„Ég er stíf og tröppur eru svolítil áskorun. En ég hélt klárlega að ég yrði verri,“ sagði hún.

„Ég hef verið verri eftir styttri hlaup en þetta hefur gengið vel. Það sem má lesa úr því er að undirbúningurinn var greinilega réttur hjá mér fyrir þetta hlaup,“ sagði Jennings.

„Ég vissi að ég yrði að vera rosalega þolinmóð í byrjun hlaupsins, svona að minnsta kosti fyrstu fimmtíu mílurnar. Ég fann næringuna vel skipulagða og eiginmaðurinn var þarna til að styðja við bakið á mér,“ sagði Jennings.

„Hann var mættur á fimm mílna fresti með allt sem ég þurfti, hvort sem það voru drykkir, gel eða bara vatn. Ég vissi að ef ég næði að drekka nóg og ná nægri orku í gegnum matinn og næði að halda réttum hraða þá yrði þetta góður dagur,“ sagði Jennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×