Viðskipti innlent

Sækja á fjórða milljarð króna

Árni Sæberg skrifar
Úr vinnsluhúsi félagsins í Þorlákshöfn.
Úr vinnsluhúsi félagsins í Þorlákshöfn. First water

Landeldisfélagið First Water í Þorlákshöfn hefur lokið hlutafjáraukningu fyrir um 3,5 milljarða króna. Meirihluti hlutafjáraukningarinnar er frá nýjum hluthöfum en einnig var góð þátttaka frá núverandi hluthöfum. Þrír lífeyrissjóðir koma inn sem nýir hluthafar og eru nú átta af tíu stærstu lífeyrissjóðum landsins í hluthafahópi First Water. Fjárfestingarfélagið Stoðir eru eftir sem áður stærsti hluthafi félagsins.

Í fréttatilkynningu þess efnis segir að First Water hafi frá stofnun sótt samtals um 27 milljarð króna í hlutafé og um 12 milljarða króna í lánsfé, en félagið tilkynnti um lánsfjármögnun frá Arion Banka og Landsbanka í lok síðasta árs. Félagið hafi þannig tryggt sér fjármögnun sem nemur 39 milljörðum króna.

First Water sé að ljúka uppbyggingu á fyrsta áfanga af sex í Þorlákshöfn. Félagið hafi þegar byggt og tekið í notkun átta yfirbyggða landeldistanka sem eru 25 metrar í þvermál og hafið vinnslu og útflutning á laxi sem vegur fimm kíló. Undirbúningur sé hafinn fyrir næstu framkvæmd en um sé að ræða uppbyggingu á 28 metra tönkum, sem muni tvöfalda árlega framleiðslugetu félagsins úr 5.000 tonnum í 10.000 tonn.

Með þeim fyrstu til að selja fimm kílóa fisk úr landeldi

Í lok september hafi félagið tilkynnt að það hefði hafið vinnslu og útflutning á fimm kílóa slægðum landeldislaxi, sem sé afar eftirsótt vara á heimsmarkaði. Framleiðslan hafi öll verið seld til viðskiptavina í Bandaríkjunum og í Evrópu. First Water sé meðal fyrstu landeldisfyrirtækja á heimsvísu til að slátra og selja á fimm kílóa slægðan lax. 

Tilkoma 25 metra eldistankanna geri félaginu kleift að framleiða þessa eftirsóttu vöru og veita viðskiptavinum jafnt og stöðugt framboð af laxi í hæsta gæðaflokki allan ársins hring, en félagið reki jafnframt fiskvinnsluhús í Þorlákshöfn með sérhæfðum vinnuslulínum til þess að vinna og pakka laxi fyrir útflutning.

Tíu þúsund tonnum meiri framleiðslugeta

Upphaflegar áætlanir First Water hafi gert ráð fyrir að afköst landeldisstöðvarinnar yrðu samtals um 50.000 tonn ári þegar stöðin væri komin í fulla vinnslu.

Reynsla síðustu mánaða bendi til þess að framleiðslugeta félagsins verði meiri og stefnt sé að því að framleiða um 60.000 tonn árlega.

Þannig verði framleiðslugeta First Water um 20.000 tonn þegar fyrstu tveir áfangarnir verða komnir í fulla notkun, en gert sé ráð fyrir að öðrum áfanga ljúki árið 2028.

„Þessi hlutafjáraukning gerir okkur kleift að halda áfram uppbyggingunni við Laxabraut í Þorlákshöfn. Reynsla okkar af landeldi á laxi í lokuðum 25 metra eldistönkum er afar góð og hafa viðtökur kaupenda við 5 kg laxinum verið framar vonum.Þessi hágæða afurð er afar mikilvæg í okkar rekstri enda mjög eftirsótt á heimsvísu. Við höfum þegar selt samtals um2.200 tonn af hágæða landeldislaxi. Verkefnin fram undan hjá First Water er áframhaldandi uppbygging á landeldisstöð okkar í Þorlákshöfn, fjármögnun félagsins og öflug sölu- og markaðsstarfsemi. Um leið og ég býð nýja hluthafa velkomna í hópinn þá vil ég þakka það traust sem fjárfestar hafa sýnt félaginu með áframhaldandi stuðning við uppbyggingaráform þess.“ er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra First Water.


Tengdar fréttir

First Water í hýbýli Ísfélagsins á Þorlákshöfn

Landeldisfyrirtækið First Water og Ísfélag hf. hafa samið um að fyrrnefnda fyrirtækið leigi húsnæði og aðstöðu hjá því síðarnefnda í Þorlákshöfn. Engin vinnsla hefur verið í húsnæðinu frá því í september.

Stjórnin stækkuð og Orri verður stjórnar­for­maður First Wa­ter

Orri Hauksson, fyrrverandi forstjóri Símans um árabil, hefur tekið við sem formaður stjórnar First Water en félagið stendur að stórfelldri uppbyggingu á landeldisstöð við Þorlákshöfn og kláraði fyrr á árinu nærri sex milljarða fjármögnun frá núverandi hluthöfum. Á nýlegum hluthafafundi First Water var ákveðið að stækka stjórnina með innkomu fjögurra nýrra stjórnarmanna en jafnframt hefur forstjóri Stoða, stærsti hluthafi landeldisfyrirtækisins, farið úr stjórninni.

First Wa­ter klárar um sex milljarða hluta­fjáraukningu frá inn­lendum fjár­festum

Eftir að hafa lokið núna hlutafjáraukningu upp á nærri sex milljarða króna, leidd af núverandi hluthöfum, hefur landeldisfyrirtækið First Water sótt sér samtals um 24 milljarða í hlutafé frá innlendum fjárfestum á allra síðustu árum. Til stóð að ganga frá umtalsverðri fjármögnun frá erlendum sjóðum á fyrri hluta þessa árs, með aðstoð fjárfestingabankans Lazard, en ljóst er að einhver bið verður á aðkomu þeirra að félaginu.

LIVE fjárfesti fyrir 1,5 milljarð í First Water og fer með sex prósenta hlut

Lífeyrissjóður verslunarmanna fjárfesti fyrir 1,5 milljarða króna með beinum hætti í landeldinu First Water þegar fiskeldið kláraði stórt hlutfjárútboð í fyrra og var þá verðmetið á liðlega 25 milljarða. Stjórnarformaður sjóðsins, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, kallar eftir því að settur verði aukinn kraft í greiningu vænlegra innviðafjárfestinga svo hægt sé að virkja sem fyrst tækifærin sem bíða á því sviði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×