Sport

Magic John­son bætir við enn einum titlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stóra brosið hans Magic Johnson hlýjar flestum um hjartaræturnar. Hann hafði ástæðu til að brosa í nótt.
Stóra brosið hans Magic Johnson hlýjar flestum um hjartaræturnar. Hann hafði ástæðu til að brosa í nótt. GettY/Daniel Shirey

Magic Johnson var afar sigursæll sem leikmaður og stórstjarna í NBA-deildinni í körfubolta en hann hefur líka haldið áfram að vinna síðan að körfuboltaferlinum lauk.

Magic Johnson er eigandi bandaríska hafnaboltaliðsins Los Angeles Dodgers.

Dodgers tryggði sér sigur í World Series í nótt eftir 5-4 sigur á Toronto Blue Jays í oddaleik á útivelli.

Blue Jays-liðið komst í 3-2 í einvíginu og þurfti þá bara einn sigur í viðbót. Dodgers unnu tvo spennuleiki í lok einvígsins og tryggðu sér titilinn

Þetta var annað árið í röð sem Dodgers tekur titilinn og í þriðja sinn síðan Magic eignaðist félagið fyrir rúmum áratug.

Titlar Magic eru þar með orðnir sextán talsins en það má sjá upptalningu á þeim hér fyrir neðan.

Los Angeles Dodgers er fyrsta liðið til að verja MLB-titilinn síðan New York Yankees vann sinn þriðja í röð árið 2000. Alls hefur Dodgers unnið níu titla, þar af átta eftir að félagið flutti frá Brooklyn árið 1957, eða þvert yfir Bandaríkin.

Titillinn er jafnframt sá annar síðan liðið fékk til sín ofurstjörnuna Shohei Ohtani árið 2024. Japaninn skrifaði þá undir stærsta íþróttasamning sögunnar, að verðmæti 700 milljónir dala og gilti hann til tíu ára.

Japaninn Yoshinobu Yamamoto var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitaeinvígisins (MVP). Hann kom einnig til Dodgers árið 2024, á sama tíma og landi hans, Ohtani.

Hér fyrir neðan má sjá, með því að fletta, nánari útlistun á öllum titlunum hans Magic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×