Körfubolti

Var með skattinn á hælunum þegar hann fór í veðmálabraskið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Terry Rozier er í miklum vandræðum vegna þátttöku sinnar í veðmálabraski í tengslum við leiki í NBA-deildinni í körfubolta.
Terry Rozier er í miklum vandræðum vegna þátttöku sinnar í veðmálabraski í tengslum við leiki í NBA-deildinni í körfubolta. Getty/Megan Briggs

NBA-körfuboltamaðurinn Terry Rozier hjá Miami Heat er sakaður um að hafa tekið þátt í veðmálasvindli í deildinni en á sama tíma skuldaði hann skattinum mikinn pening.

Sama ár og Rozier var sakaður um að hafa haft áhrif á frammistöðu sína í NBA-leik sem hluti af veðmálabraski, stóð hann frammi fyrir átta milljóna dollara skattaskuld frá skattyfirvöldum Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í gögnum sýslumanns sem ESPN hefur náð í.

IRS lagði fram 8.218.211 Bandaríkjadala skattaskuld í Broward-sýslu í Flórída, þar sem Rozier á heimili, í nóvember 2023. Skuldin var lögð fram eftir að gjaldfallnar tilkynningar höfðu verið sendar til skattgreiðandans [Rozier], samkvæmt Steven N. Klitzner, skattalögmanni í Flórída. Átta milljónir dollara eru 987 milljónir í íslenskum krónum.

„Þetta ætti ekki að koma þeim á óvart,“ sagði Klitzner við ESPN.

Samkvæmt ákæru sem birt var síðastliðinn fimmtudag er Rozier sakaður um að hafa veitt vini sínum, Deniro Laster, upplýsingar sem voru ekki opinberar. Þær voru um áform hans um að yfirgefa leikinn snemma í mars 2023.

Laster seldi síðan mönnum þær upplýsingar fyrir um hundrað þúsund dollara eða um 12,3 milljónir íslenskra króna. Rozier spilaði í rúmar níu mínútur áður en hann yfirgaf leikinn og kenndi fótmeiðslum um.

Rozier borgaði síðan fyrir ferð Laster til Fíladelfíu til að sækja ágóðann af svikamyllunni áður en hann ók heim til Rozier til að telja peningana með honum.

Rozier og Laster voru ákærðir fyrir samsæri um fjársvik og samsæri um peningaþvætti. Þeir voru meðal 34 sakborninga sem handteknir voru í síðustu viku í tveimur umfangsmiklum alríkisrannsóknum á fjárhættuspilum í tengslum við NBA-leiki.

NBA-deildin sendi Rozier í leyfi eftir að ákæran varð opinber. Deildin rannsakaði Rozier árið 2023 eftir að grunsamleg veðmál voru sett á undirliða á grundvelli tölfræði hans í leiknum en komst þá að því að hann hafði ekki brotið gegn reglum deildarinnar. Í síðustu viku sagði Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA, að Rozier hefði unnið með rannsókn NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×