Viðskipti innlent

Lands­bankinn hagnast um tæpa 30 milljarða á níu mánuðum

Eiður Þór Árnason skrifar
Landsbankahúsið er staðsett við Hafnartorg í miðbænum. Þar eru höfuðstöðvar bankans.
Landsbankahúsið er staðsett við Hafnartorg í miðbænum. Þar eru höfuðstöðvar bankans. Vísr/Anton Brink

Landsbankinn hagnaðist um 29,5 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins. Þar af nam hagnaður 11,1 milljarði á þriðja ársfjórðungi. Hreinar vaxtatekjur voru 49,4 milljarðar króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hreinar þjónustutekjur 9,2 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum og uppgjöri hans fyrir tímabilið.

Landsbankinn innti síðari hluta arðgreiðslu ársins til hluthafa í september og námu arðgreiðslur ársins samtals 18,891 milljarði króna. Íslenska ríkið á 98,2% hlutafjár í bankanum.

Arðsemi eiginfjár var 12,2% samanborið við 11,7% á sama tímabili árið áður. Á sama tíma nam vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna 2,9%.

Afkoma tryggingafélagsins TM, dótturfélags Landsbankans, á tímabilinu 28. febrúar til 30. september 2025 af vátryggingarsamningum var 1,5 milljarðar króna. Þar af voru 528 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Samsett hlutfall TM er 88,7% á fyrstu níu mánuðum ársins 2025.

Kostnaðarhlutfall Landsbankans var 33,2% á fyrstu níu mánuðum 2025, samanborið við 32,3% á sama tímabili árið 2024. Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 24,0% en fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir heildarkröfu um 20,4% eiginfjárgrunn.

Í júlí síðastliðnum tók Landsbankinn tilboði Landsbyggðar ehf. í Landsbankahúsið við Austurstræti 11 og Hafnarstræti 10, 12 og 14. Söluverð húsanna var 2,85 milljarðar króna.

Fréttin er í vinnslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×