Innlent

Allt stefnir í verk­fall flug­um­ferðar­stjóra á sunnu­dag

Eiður Þór Árnason skrifar
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Engin niðurstaða fékkst á fundi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í dag. Verkfallsaðgerðir eru fyrirhugaðar á sunnudag og nýr fundur ekki verið boðaður í kjaradeilunni.

Fundurinn í dag stóð yfir í um fjórar klukkustundir og lauk klukkan fimm. Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir litla hreyfingu vera á viðræðunum en ýmislegt hafi verið reynt. Nú sé útlit fyrir fyrstu verkfallsaðgerðirnar á sunnudag. 

„Við svo sem útilokum ekkert en eins og staðan er akkúrat núna þá stefnir í það, því miður.“

Undanþága fyrir sjúkraflug

Fyrsta vinnustöðvunin beinist að aðflugssvæði Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvallar og er sambærileg þeirri sem farið var í árið 2023, að sögn Arnars. Verkfallið hefst að óbreyttu klukkan tíu á sunnudagskvöld og stendur fram til þrjú aðfaranótt mánudags. Undanþága verður fyrir neyðarflug, sjúkraflug og Landhelgisgæsluna.

Kjaradeilunni var vísað til ríkissáttasemjara í apríl. Á þriðjudag boðuðu flugumferðarstjórar áðurnefnda vinnustöðvun sem leiðir til þess að lofthelgi yfir Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli verður lokað.

Arnar segir í samtali við fréttastofu að sem fyrr sé deilt um launaliðinn og útfærslu á honum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×