Erlent

Bíll eins þekktasta rannsóknar­blaða­manns Ítalíu sprengdur í loft upp

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn á vettvangi sprengingarinnar í bíl rannsóknarblaðamannsins Sigfrido Ranucci í Pomezia á Ítalíu í morgun.
Lögreglumenn á vettvangi sprengingarinnar í bíl rannsóknarblaðamannsins Sigfrido Ranucci í Pomezia á Ítalíu í morgun. AP/Cecilia Fabiano/La Presse

Sprengja sprakk undir bíl eins fremsta rannsóknarblaðamanns Ítalíu fyrir utan heimili hans sunnan af Róm í nótt. Giorgia Meloni, forsætisráðherra, fordæmdi tilræðið í morgun og ógnanir sem blaðamaðurinn sætti.

Engan sakaði í sprengingunni í bíl Sigfrido Ranucci sem stýrir fréttaskýringarþættinum Report á sjónvarpsstöðinni RAI3 í nótt. 

Sprengingin gereyðilagði bílinn, skemmdi annan bíl fjölskyldu blaðamannsins og hús við hliðina á honum í bænum Pomezia, suður af Róm, samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar. RAI3 segir að sprengingin hafi verið svo öflug að hún hefði drepið hvern sem hefði átt leið hjá.

Report, þáttur Ranucci, er einn fárra rannsóknarblaðamennskuþátta í ítölsku sjónvarpi. Hann fjallar reglulega um þekkta stjórnmálamenn, kaupsýslumenn og opinberar persónur. Fyrr í vikunni var Ranucci sýknaður af kæru fyrir meiðyrði vegna umfjöllunar Report.

Meloni forsætisráðherra lýsti yfir samstöðu með Ranucci í morgun.

„Frelsi og sjálfstæði upplýsinga eru nauðsynleg gildi lýðræðisríkja sem við höldum áfram að verja,“ sagði hún í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×