Erlent

Stöðvaði fram­sal manns sem er grunaður um skemmdar­verk á Nord Stream

Kjartan Kjartansson skrifar
Nord Stream-stöð í Þýskalandi. Leiðslurnar sem fóru í sundur fluttu gas frá Rússlandi til Þýskalands.
Nord Stream-stöð í Þýskalandi. Leiðslurnar sem fóru í sundur fluttu gas frá Rússlandi til Þýskalands. Vísir/EPA

Æðsti dómstóll Ítalíu stöðvaði í dag framsal á Úkraínumanni sem er grunaður um að hafa tekið þátt í skemmdarverkum á Nord Stream-gasleiðsunum í Eystrasalti til Þýskalands. Málinu var vísað aftur til lægra dómstigs.

Serhii Kuznietsov, tæplega fimmtugur úkraínskur karlmaður, var handtekinn nærri Rimini á Ítalíu 21. ágúst. Hann var þar í fjölskyldufríi en evrópsk handtökuskipun hafði verið gefin út á hendur honum. Þýsk yfirvöld saka hann um að hafa skipulagt og framið skemmdarverkin á gasleiðslunum árið 2022.

Kuznietsov neitar sök og fullyrði að hann hafi verið í Úkraínu við herþjónustu þegar skemmdarverkin voru framin.

Pólsk yfirvöld handtóku annan Úkraínumann sem er grunaður um aðild að skemmdarverkunum í síðasta mánuði. Dómstólar þar hafa enn ekki tekið afstöðu til framsals hans en Donald Tusk forsætisráðherra hefur sagt að það sé ekki hagsmunir Póllands að framselja hann.

Nord Stream 1 og 2 voru rofnar í sprengingum í ágúst árið 2022. Leiðsla númer 1 hafði flutt jarðgas frá Rússlandi til Þýskalands en lokað hafði verið fyrir hana vegna innrásar Rússa í Úkraínu fyrr um árið. Leiðsla númer tvö hafði aldrei verið tekin í notkun.

Metangaslekinn sem skemmdarverkin ollu er talinn sá umfangsmesti sem sögur fara af. Áætlaður hefur verið að hundruð þúsunda tonn af gróðurhúsalofttegundunni hafi ollið upp úr hafinu og út í andrúmsloft jarðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×