Innlent

Nor­rænir bankar skoði hvort breyta þurfi skil­málum vegna dómsins

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri SFF segir ómögulegt að segja til um áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálakerfið.
Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri SFF segir ómögulegt að segja til um áhrif dóms Hæstaréttar á fjármálakerfið. Vísir

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu segir of snemmt að segja til um hvaða áhrif nýuppkveðinn dómur í vaxtamálinu muni hafa fyrir fjármálakerfið. Hún segir nágrannalönd fylgjast grannt með málinu og banka á Norðurlöndum skoði hvort þeir þurfi að uppfæra skilmála í lánasamningum sínum í takt við regluverk. 

Hæstiréttur féllst í gær á kröfur neytenda að hluta í Vaxtamálinu svokallaða. Málið varðar tugmilljarða hagsmuni neytenda annars vegar og stóru viðskiptabankanna þriggja hins vegar. Niðurstaðan í máli Íslandsbanka var sú að umdeildir skilmálar í lánasamningi voru ógiltir en ekki var fallist á fjárkröfur á hendur bankanum.

Íslandsbanki gerir ráð fyrir að fjárhagsleg áhrif dómsins verði innan við milljarður króna fyrir skatta. Arion banki og Landsbankinn hafa í framhaldi dómsins bent á að skilmálar þeirra séu frábrugðnir þeim sem fjallað var um í máli Íslandsbanka.

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, segist ekki geta tjáð sig um einstaka mál eða lánveitendur. Þá bendir hún á að fimm dómsmál þessu tengd séu í gangi og einungis komin niðurstaða í eitt. 

Í febrúar síðastliðnum voru stóru viðskiptabankarnir þrír sýknaðir í Landsrétti í þremur sambærilegum málum. Neytendastofa lagði þó Íslandsbanka í einu máli.

„Málin eru ekki eins. Það eru mismunandi lánveitendur, þau eru veitt á mismunandi tímabili og jafnframt eru mismunandi skilmálar. Þannig að það er ómögulegt að segja,“ segir Heiðrún. 

Már Wolfgang Mixa dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands tók í sama streng í samtali við fréttastofu í gær þegar hann sagði ómögulegt að meta niðurstöðu Hæstaréttar í fljótu bragði. 

Hvaða áhrif hefur þetta á neytendavernd að þínu mati?

„Þessi tilskipun sem verið er að byggja á kemur frá Evrópu. Sú þróun hefur verið í Evrópu að auka neytendavernd og heilt yfir er það jákvætt. Það er að segja, að neytendur hafi betri rétt í öllum tilvikum.“

Þar sem um evrópskar reglur ræðir segir Heiðrún norræna kollega bankanna á Íslandi fylgjast grannt með málinu og SFF hafi veitt þeim upplýsingar í framvindu málsins. 

„Og það eru ekki síst Norðmenn og Danir sem eru að horfa til þess líka, hvort þeir þurfi að breyta sínum skilmálum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×