Innlent

Fornbílar og þjóðbúningar á Eyrar­bakka í dag

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Eyrún Olsen Jensdóttir, sem er viðburðastjóri hátíðarinnar (t.v.) og Guðrún Hildur klæðskeri hjá Annríki, sem er allt í öllu á hátíðinni.
Eyrún Olsen Jensdóttir, sem er viðburðastjóri hátíðarinnar (t.v.) og Guðrún Hildur klæðskeri hjá Annríki, sem er allt í öllu á hátíðinni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Skrúðganga í þjóðbúningum í fylgd fornbíla verður einn af hápunktum dagsins á Eyrarbakka í dag því þar stendur Þjóðbúningafélag Íslands og Byggðasafnið á staðnum fyrir hátíðin, sem nefnist „Þjóðbúningar og skart“.

Hátíðin hófst í gær á Selfossi í sal eldri borgara í Grænumörk 5 með fjölbreyttri dagskrá en dagskráin í dag hjá Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka í Húsinu hefst klukkan 14:00 en þá verður meðal annars farin skrúðganga með fornbílum í Sjóminjasafnið en þar mun Lýður Pálsson, safnstjóri og Ásmundur Kristjánsson gullsmiður fjalla um muni úr silfursjóði safnsins.

Eyrún Olsen mun opna hátíðina á Eyrarbakka.

Og þú átt von á góðri þátttöku í skrúðgöngunni ef að verðið verður þannig?

„Að sjálfsögðu, þetta verður svo gaman. Þetta hefur ekki verið gert áður mér vitanlega,“ segir Eyrún.

Guðrún Hildur klæðskeri hjá Annríki, sem er fyrirtæki, sem sérhæfir sig í öllu, sem við kemur íslenskum þjóðbúningum segir að það sé mikill áhugi í þjóðfélaginu á öllu í kringum þjóðbúninga og gerð þeirra.

„Hún er bara búin að vera góð lengi en nú erum við bara að sjá nýja kynslóðir því yngra fólkið er að koma inn og það er greinilega áhugi þar og við þurfum að vinna svolítið með það,“ segir Guðrún Hildur.

Kátar og hressar konur í þjóðbúningunum sínum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og Eyrún bætir við.

„Þetta er alveg klárlega á uppleið enda er þetta okkar arfleifð rétt eins og tungumálið okkar, þá er fatnaðurinn okkar arfleifð okkar.“

Mikil aðsókn var að þjóðbúningasýningunni í Grænumörk á Selfossi í gær.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×