Körfubolti

„Dregur að­eins af þeim en við getum gefið meira í“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingarnir hans Jakobs Arnar Sigurðarsonar eru með fullt hús stiga í Bónus deild karla.
KR-ingarnir hans Jakobs Arnar Sigurðarsonar eru með fullt hús stiga í Bónus deild karla. vísir/anton

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari KR, var nokkuð sáttur eftir 26 stiga sigur á Ármanni, 89-115, í 2. umferð Bónus deildar karla í kvöld.

„Ég er sáttur með sigurinn og ánægður með margt sem við gerðum í dag. Auðvitað er margt sem við hefðum getað gert betur líka. En heilt yfir er ég bara mjög ánægður,“ sagði Jakob í samtali við Vísi eftir leik.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en svo sigu KR-ingar fram úr.

„Við vissum alveg að Ármann myndu koma alveg vel peppaðir og tilbúnir til leiks. Þetta var fyrsti heimaleikurinn þeirra og þeir gerðu vel í 1. leikhluta. Þeir voru góðir, réðust á okkur og fengu opin skot sem að við náðum svolítið að laga,“ sagði Jakob.

Ármenningar voru án Bandaríkjamannsins Dibaji Walker og svo meiddist Cedrick Bowen snemma leiks. Jakob segir að KR-ingar hafi nýtt sér breiddina vel í kvöld.

„Augljóslega erum við með breiðari hóp og þeir spila mikið á sömu mönnum þannig að skiljanlega dregur aðeins af þeim en við getum gefið aðeins meira í. Þannig að það var aðalmunurinn,“ sagði Jakob.

Honum fannst KR-ingar gera ýmislegt betur en í sigrinum á Stjörnumönnum í 1. umferðinni.

„Sóknarlega vorum við betri, boltaflæðið var betra og við vorum með mun færri tapaða bolta. Við fengum mikið af auðveldum körfum í hraðaupphlaupum og slíkt sem ég var sáttur með,“ sagði Jakob.

Bandaríkjamaðurinn Kenneth Doucet lék sinn fyrsta leik fyrir KR í kvöld.

„Hann stóð sig ágætlega. Þetta er fyrsti leikurinn hans sem atvinnumaður. Hann er að koma beint úr skóla og það er margt sem hann þarf að læra og aðlaga sig að á Íslandi og hvernig boltinn er spilaður hér. Þannig að þetta var bara flottur leikur hjá honum og við höldum bara áfram að vinna með honum,“ sagði Jakob að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×