Innlent

Utan­ríkis­ráð­herra Palestínu á Ís­landi á sögu­legum tímum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ráðherrarnir takast í hendur við upphaf fundar þeirra í utanríkisráðuneytinu í morgun.
Ráðherrarnir takast í hendur við upphaf fundar þeirra í utanríkisráðuneytinu í morgun. Vísir/Anton Brink

„Það er mér mikill heiður að vera hér í dag. Ísland á sérstakan stað í hjarta palestínsku þjóðarinnar.“ Þetta var það fyrsta sem Dr. Varsen Aghabekian, utanríkisráðherra Palestínu, sagði þegar hún ávarpaði íslenska fjölmiðla rétt fyrir fund hennar með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í utanríkisráðuneytinu.

Í gærkvöldi má segja að hafi orðið ákveðin vatnaskil í friðarviðræðum á Gasaströndinni en Bandaríkjaforseti greindi frá því í gær að samkomulag hefði náðst og að öllum gíslum Hamas verði sleppt innan skamms og að Ísraelar muni draga hermenn sína til baka. Ríkisstjórn Ísrael og stríðsráð munu funda síðar í dag og taka formlega ákvörðun um hvort vopnahlé verði samþykkt. Þrátt fyrir að miklar líkur séu á að stórum áfanga verði náð í dag er ekkert fast í hendi enn. En það er á þessum degi, sem gæti orðið sögulegur, sem Dr. Varsen er stödd á Íslandi.

„Þetta er sögulegur dagur, sem gefur okkur von fyrir fólkið í Palestínu og lausn gíslanna. Það er það sem við þurfum að ræða en líka hvernig við getum stutt við bakið á Palestínu til framtíðar,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra þegar hún ávarpaði fjölmiðla við upphaf fundar hennar með Dr. Varsen.

„Það er mikill heiður að vera hérna í dag. Ísland er í hjarta Palestínumanna, eitt fyrsta ríkið til að viðurkenna Palestínu og gerði rétt á þeim tíma. Í dag sjáum við önnur lönd feta í fótspor Íslands,“ sagði Dr. Varsen.

Í dag yrði bjartari framtíð Palestínu með aðstoð Íslands til umræðu.

„Þetta er stór dagur fyrir Palestínumenn. Við höldum að árásir á Gasa muni stoppa og Palestínufólk geti leitað að betri framtíð. Við munum byggja á fullveldi okkar og sjálfstæði eins og Ísland.“

Þar ríki bjartsýni, sem fyrr.

„Við verðum að vera bjartsýn fyrir Palestínumenn til að halda voninni á lofti. Svartsýni ætti ekki að vera til í okkar orðabók. Við höfum fengið nóg af þjáningu og sársauka og við eigum rétt á því að hafa sjálfsákvörðunarvald. Sá tími er núna..“

Allar þjóðir geti gegnt hlutverki óháð stærð.

„Við getum rætt sérhæfingu hvers lands. Í dag þurfa Palestínumenn á allri mögulegri hjálp að halda. Gasa á skilið að allir hjálpist að svo að enduruppbygging geti hafist. Ísland getur spilað hlutverk þar, ekki bara á Gasa heldur á öllu Palestínuríki.“

Í dag myndu ráðherrar ræða möguleika á sterkari samvinnu ríkjanna og hvernig Ísland geti gegnt lykilhlutverki í enduruppbyggingarferlinu á Gasa og um leið stutt ríki sem berjist fyrir fullveldi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×