Handbolti

Donni öflugur og skildi heima­menn eftir í sárum

Sindri Sverrisson skrifar
Donni var markahæstur í frábærum sigri í kvöld.
Donni var markahæstur í frábærum sigri í kvöld. Vísir

Landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson, eða Donni, stóð að vanda vel fyrir sínu í liði Skanderborg Aarhus þegar það vann öflugan útisigur gegn Bjerringbro/Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 35-28.

Donni var annar af markahæstu mönnum SAH með sex mörk í kvöld og var einnig einn af þeim sem gáfu flestar stoðsendingar, eða fjórar.

Bjerringbro-Silkeborg var 18-17 yfir í hálfleik en svo náðu gestirnir fljótt forystunni og létu hana ekki af hendi eftir það. Þeir komust til að mynda í 29-23 og enduðu svo á að vinna með sjö marka mun.

Heimamenn voru augljóslega svekktir og það mátti líka heyra hjá Mads Svane í viðtali við TV 2 eftir leik: „Skanderborg er gott lið… Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Mér finnst þetta vandræðalegt hérna á heimavelli. Ég er virkilega vonsvikinn.“

SAH er nú með tíu stig í 3. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, eftir sjö leiki, þremur stigum fyrir ofan Bjerringbro-Silkeborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×