Tíska og hönnun

Léti aldrei sjá sig í ökklasokkum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Emmsjé Gauti ræddi við blaðamann um tískuna.
Emmsjé Gauti ræddi við blaðamann um tískuna. Aðsend

„Tíska spilar stórt hlutverk í heildarmyndinni af því að gefa út músík,“ segir rapparinn Emmsjé Gauti sem hefur alla tíð farið eigin leiðir í tískunni og klæðaburður hans hefur alltaf átt í samtali við tónlistina hans. Gauti, sem var að gefa út plötuna Stéttin, ræddi við blaðamann um tískuna og tónlistina.

Platan Stéttin kom út fyrir rúmum mánuði og hefur fengið góðar viðtökur. Meðal laga er smellurinn 10 þúsund þar sem Gauti rappar með Króla en lagið hefur flogið hátt á vinsældarlistum víða.

„Ég ætlaði ekki að halda útgáfutónleika fyrir plötuna því mér fannst það vera of nálægt Jülevenner tónleikunum en ég gat ekki sleppt því og ákvað að halda útgáfutónleika á Græna hattinum á Akureyri sem er uppáhalds tónleikastaðurinn minn. 

Það er næstum því uppselt og ég veit að það er fullt af liði að fara í road-trip norður til að mæta á þetta gigg,“ segir Gauti og bætir við að hann sé á milljón núna að skipuleggja tónleikana Jülevenner.

„Jülevenner komu, sáu og sigruðu í ÍR heimilinu í Breiðholti í fyrra. Við tókum áhættu og færðum giggið úr Háskólabíó yfir í ÍR heimilið og við sjáum ekki eftir því og ég hlakka til að endurtaka leikinn í desember,“ segir Breiðhyltingurinn brosandi.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Ég er tónlistarmaður en tónlist er svo miklu meira en bara músíkin sjálf. Það er allur sjónræni hlutinn sem spilar inn í til að fullkomna heiminn sem maður skapar. 

Tíska spilar stórt hlutverk í heildarmyndinni af því að gefa út músík hvort sem það eru fötin, plötuumslögin eða myndböndin sem maður sendir frá sér.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Í augnablikinu eru það loafers skór frá Filling pieces. Á nokkur pör frá þessu merki og þessir í miklu uppáhaldi.

Svo á ég líka margar uppáhalds flíkur sem ég er með í geymslu en ég geymi mikið af fötum sem ég hef til dæmis verið í á plötucoverum og í myndböndum.

Ég held að uppáhalds fötin mín í geymslunni séu af plötuumslaginu fyrir Vagg & velta frá árinu 2016.

Plötuumslagið fyrir Vagg & velta.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Hjólabretti + rappmúsík + casual stíll. Einhver ágætis blanda þarna á milli.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Hann hefur farið fram og aftur með misalvarlegum slysum inn á milli. Einfaldleiki hefur heillað mig meira og meira með árunum.

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Stundum finnst mér það æði og stundum algjör kvöð. Það er gaman að leika sér með lúkk og líta vel út. Vandamálið er að ég geymi það alltaf alveg þangað til á síðustu stundu og þá fer ég í panikk mode.

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Að líða vel og vera ekki að neyða sig í eitthvað sem maður fílar sig ekki í. Jakkaföt eru til dæmis ekki fyrir mig.

Ég á einn sérsniðinn tux sem ég lét sauma fyrir brúðkaupið mitt, en annars finnst mér betra að fara aðrar leiðir fyrir fínni föt.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Það er mismunandi. En undanfarið hef ég sótt innblástur í hjólabretti. Rapp og hjólabretti er kjarninn minn. 

Allt artwork í kringum nýju plötuna mína STÉTTIN sótti innblástur í hjólabrettamenningu. Skór sem mega skemmast, víðar buxur og plain t-shirt. Draumurinn.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Engir ökklasokkar. Það er hægt að semja um flest annað.

„Ég veit þú þráir okkur

Kærastinn þinn hann er algjör bitch

Og gengur um í alltof litlum ökklasokkum“

- úr laginu lax með Emmsjé Gauta

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Það er tískuslys sem ég kann að meta. Það eru zebra buxur sem ég var í á plötuumslaginu á fyrstu plötunni minni sem heitir "Bara ég". Það komu tvö stykki af þeim í búðina NOLAND árið 2009.

Ég á flestar aðrar flíkur af plötuumslögum í geymslu en þessar buxur týndust heima hjá rapparanum 7berg fyrir svona fjórtán árum. 

Um daginn fæ ég svo skilaboð frá manni sem átti hitt parið. Þegar þær mæta þá á ég allt safnið.
Hlébarðabuxurnar umtöluðu sem ótrúlegt en satt eru á leið aftur til Emmsjé Gauta.Aðsend

Hvað finnst þér heitast fyrir haustið?

Ég er bara spenntastur fyrir því að sækja föðurlandið og allar úlpurnar mínar í geymsluna.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Bara „You do you“ og ekki pæla í öðrum. Nettir hlutir verða nettir þegar nett lið ákveður að gera netta hluti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.