Innlent

Sveitar­stjóri Mýrdalshrepp vill verða ritari

Árni Sæberg skrifar
Einar Freyr vill taka við embætti ritara Framsóknar.
Einar Freyr vill taka við embætti ritara Framsóknar.

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti ritara Framsóknar á miðstjórnarfundi 18. október næstkomandi.

Í tilkynningu þess efnis segir Einar Freyr að Framsókn hafi frá upphafi verið burðarafl í íslenskum stjórnmálum um allt land. Fylgið við Framsókn mælist nú lægra en erindi flokksins réttlæti, og hann sé tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að snúa þeirri þróun við. Hann hafi aflað sér reynslu úr flokksstarfinu og af vettvangi sveitarstjórnar sem hann vilji miðla af og fylgja eftir þeim hugsjónum sem hann brenni fyrir.

Sem ritari vilji hann leggja sitt af mörkum til að efla grasrót flokksins og tryggja stuðning við flokksfélögin í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

„Ég sé tækifæri í því að beina pólitískri umræðu í auknum mæli að málefnum sem raunverulega snerta daglegt líf fólks. Við erum kjörin til þess að tryggja og bæta lífsgæði íbúanna okkar og við höfum öll tæki og tól til þess ef við höldum okkur að efninu. Þau okkar sem hafa verið valin í ábyrgðarstöður hjá sveitarfélögum þekkjum það vel og Framsókn hefur góða sögu að segja um allt land. Við þurfum að tryggja að Framsókn verði áfram sterkt stjórnmálaafl á þeim vettvangi og það verður verkefni forystu flokksins næstu misserin.

Ég heiti því að leggja mig allan fram ef ég fæ stuðning í embætti ritara og ég hlakka til að hitta félaga mína á miðstjórnarfundi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×