Fótbolti

Kaupa einn frægasta leik­vang heims til þess að rífa hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Örlög San Siro leikvangsins eru ráðin. Leikvangurinn verður rifinn og annar leikvangur byggður í staðinn.
Örlög San Siro leikvangsins eru ráðin. Leikvangurinn verður rifinn og annar leikvangur byggður í staðinn. Getty/Alex Gottschalk

Borgarráð Mílanóborgar á Ítalíu hefur samþykkt að selja San Siro leikvanginn, einn frægasta fótboltaleikvang heims.

Kaupendurnir eru nágrannarnir og erkifjendurnir AC Milan og Inter Milan.

Það þó þó langan tíma að komast að niðurstöðu en salan var loksins samþykkt eftir tólf tíma næturfund hjá borgarráðinu.

Niðurstaðan var 24 atkvæði gegn 20 en atkvæðagreiðslunni lauk klukkan þrjú um nóttina.

Leikvangurinn er 99 ára gamall og hefur hýst margra eftirminnilega leiki í gegnum tíðina.

Félögin hafa spilað saman á þessum leikvangi en hann er gamaldags og úrsérgenginn þegar kemur að nútímakröfum til fótboltaleikvanga hjá stórliðum. Hann er vissulega sögulegur og goðsagnakenndur en aðbúnaður leikmanna, starfsmanna og áhorfenda fær ekki háa einkunn.

Mílanóliðin eru líka að verða af miklum tekjum vegna takmarkanna leikvangsins en nú ætla þau að breyta því.

Planið er að rífa þennan næstum því hundrað ára gamla leikvang en byggja í staðinn nýjan leikvang sem mun taka meira en sjötíu þúsund manns í sæti.

Allt svæðið í kringum leikvanginn verður einnig tekið í gegn og þar verða byggðir verslunarkjarnar, hótel og lúxusíbúðir í nágrenni við nýjan leikvang. Þar liggja einnig tekjumöguleikar og með þessu ætla þessi tvö ítölsku stórlið loksins að nálgast aðra risa í Evrópu þegar kemur að tekjum og innkomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×