Íslenski boltinn

„Við þurfum að horfa inn á við“

Hinrik Wöhler skrifar
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, átti fá svör við sóknarleik ÍBV á Ísafirði í dag.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, átti fá svör við sóknarleik ÍBV á Ísafirði í dag. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var ómyrkur í máli eftir stórt tap gegn ÍBV í neðri hluta Bestu deildar karla í dag.

„Þetta er eitt stærsta tap á ferlinum á Íslandsmóti, held ég. Mitt stærsta tap Vestra síðan ég kom hérna. Það skrýtna við þetta að mér fannst þetta ekki 5-0 leikur en staðreyndin er sú að við hefðum getað tapað þessu stærra. Í hvert einasta skipti sem þeir komast inn í vítateiginn hjá okkur þá gátu þeir skorað og gátu nánast skorað að vild,“ sagði Davíð eftir leikinn á Ísafirði í dag.

Eyjamenn skoruðu fjögur mörk í fyrri hálfleik og veittu Vestramenn litla mótspyrnu. Davíð segir að mörkin sem ÍBV skoraði megi rekja til einbeitingarleysis og mistaka.

„Öll mörk sem við fáum á okkur í dag eru bara mistök. Yfirleitt er það nú þannig í fótbolta en í dag er þetta ekkert annað en einbeitingarleysi. Við sjáum það í öllum mörkunum sem þeir skora.“

„Í öðru markinu sérstaklega, léleg sending til baka. Ég hef oft horft í það að þrjú mistök á móti góðum liðum að það kostar mark og mér fannst bara vera röð atvika í hverju einasta marki í dag sem þeir skora í dag þar sem við hefðum getað gert betur.“

Vestramenn án sigurs í sex deildarleikjum

Davíð var ósáttur með andleysi lærisveina sinna og þá sérstaklega á miðsvæðinu. Hann segir stöðuna orðna alvarlega þegar þrjár umferðir eru eftir af deildinni og að liðið þurfi að fara í naflaskoðun til að snúa genginu við.

„Við unnum ekki návígin á miðsvæðinu og þeir fengu tíma á boltann inn á miðsvæðinu sem var okkar helsti fókus fyrir leikinn að þeir fengu ekki. Bara enn og aftur, við þurfum að horfa inn á við og horfa í spegilinn og „facea“ þessi vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Við gerum það ekki einir og sér, við gerum það sem lið. Það er það sem ég hef að segja um þennan leik, það verður bara að vera næsti leikur og áfram gakk,“ sagði Davíð.

„Ég tek þetta tap mjög nærri mér, þetta er mitt stærsta tap með Vestra þannig ég horfi mjög alvarlegum augum á þetta,“ bætti Davíð við að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×