Innlent

„Stór hús­næðis- og efnahagspakki“ á leiðinni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra.
Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra. Vísir/Anton

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði ríkissstjórnina hafa sett saman sérstakan húsnæðis- og efnahagspakka. Hún ávarpaði flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar á Hellu í dag.

Í ræðu Kristrúnar er lítið um útfærsluatriði enda um eins konar fundarsetningarræðu að ræða en hún segir að þetta verði „stór pakki“ með nýjum efnahagsaðgerðum sem virkilega muni um. Hann verði kynntur á næstu vikum.

Forsætisráðherra sagði aðgerðirnar fela í sér tiltekt sem vinni gegn þenslu, markvissari húsnæðisstuðning og meiri húsnæðisuppbyggingu með aukinni skilvirkni og fyrirsjáanleika. Þá feli hann einnig í sér einföldun regluverks og „margháttaðar aðgerðir sem við í Samfylkingu höfum talað fyrir til að draga úr hvata til að fjárfestingarvæða íbúðir.“ Loka eigi glufum og draga úr undanþágum í skattkerfinu.

Kristrún sagði einnig að frumvörp frá vorþingi um Airbnb-útleigu verði endurflutt. Þannig eigi að koma á betri yfirsýn og sanngjarnari reglum með skráningarskyldu á leigumarkaði.

„Og allt verða þetta aðgerðir sem hægt verður að ganga í og framkvæma hratt. Því að þessi ríkisstjórn er fyllilega meðvituð um að það er löngu komið nóg af fögrum fyrirheitum og alls konar hugmyndum í húsnæðismálum. Við kynnum því ekki neitt nema það sem okkur er full alvara með að framkvæma,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×