Erlent

Fundu leyni­lega sígarettuverksmiðju í neðan­jarðar­byrgi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sígaretturnar voru dulbúnar eins og þær hafi verið framleiddar af alvöru tóbaksfyrirtækjum.
Sígaretturnar voru dulbúnar eins og þær hafi verið framleiddar af alvöru tóbaksfyrirtækjum. Skjáskot

Ítalskir lögregluþjónar lögðu á dögunum hald á rúm 150 tonn af sígarettum sem framleiddar voru í ólöglegri og leynilegri verksmiðju sem falin var í neðanjarðarbyrgi. Verksmiðjan er sú stærsta sinnar tegundar sem fundist hefur.

Verksmiðjan fannst undir vöruskemmu í bænum Cassinu suðaustur af Róm og var þar hægt að framleiða um fimm þúsund sígarettur á mínútu. Lögreglan áætlar að það samsvari um sjö milljónum sígaretta á dag eða um 2,7 milljörðum á ári, samkvæmt AFP fréttaveitunni.

Þá áætla starfsmenn innanríkisráðuneytis Ítalíu að tekjurnar af starfsemi verksmiðjunnar hafi verið um 900 milljón evrur á ári. Það samsvarar um 128 milljörðum króna.

Samkvæmt AFP voru lögregluþjónar að framkvæma leit í vöruskemmunni, sem virtist alveg tóm. Þar fundu lögregluþjónar þó hnappa sem voru faldir í pappakassa og þegar þeir ýttu á þá, opnaðist gátt í gólfi skemmunnar, undir litlu skrifstofurými.

Þar fannst þessi háþróaða verksmiðja, gífurlegt magn af sígarettum og háþróað lofthreinsikerfi sem kom í veg fyrir að útblástur frá verksmiðjunni kæmi upp um hana.

Einhverjir hafa verið handteknir vegna málsins en ekki liggur fyrir hve margir.

Einnig fannst pökkunarbúnaður og umbúðir sem glæpamennn notuðu til að pakka sígarettunum inn og láta þær líta út fyrir að hafa verið framleiddar af raunverulegum fyrirtækjum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi frá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×