Fótbolti

„Erfitt að kveðja allt fólkið í Krikanum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Arna Eiríksdóttir kveður fólkið í Kaplakrika eftir þrjú ár sem leikmaður FH.
Arna Eiríksdóttir kveður fólkið í Kaplakrika eftir þrjú ár sem leikmaður FH. vísir / guðmundur

Arna Eiríksdóttir yfirgaf herbúðir FH og skrifaði undir hjá Valeranga fyrir tveimur vikum síðan. Hún hefur farið geyst af stað með nýju liði en kemur til með að sakna fólksins í Kaplakrika.  

Arna spilaði sinn fyrsta leik fyrir norska liðið úti í Ungverjalandi þegar Valeranga tryggði sér sæti í Meistaradeildinni, um síðustu helgi skoraði hún svo sitt fyrsta mark í 4-0 deildarsigri gegn Kolbotn.

„Miklar breytingar á stuttum tíma og mikið til þess að aðlagast. Ég fór í miklum flýti þannig að maður þurfti aðeins að ná sér niður. En þetta er ótrúlega flott allt hérna, gott umhverfi og stelpurnar hafa tekið vel á móti mér. Þannig að mér hefur liðið mjög vel fyrstu tvær vikurnar.“

Fótboltalega rétt en persónulega erfitt

Arna var keypt af Valeranga eftir frábært sumar sem fyrirliði FH, hún skilur við liðið á góðum stað, í öðru sæti Bestu deildarinnar en segir erfitt að kveðja Kaplakrika.

„Fótboltalega myndi ég segja að þetta hafi verið rétti tíminn til að kveðja, mig langaði til að taka næsta skref og fá aðeins stærri áskorun, en á persónulegum nótum þá var þetta mjög erfitt...

FH hefur átt frábært sumar og situr í öðru sæti deildarinnar en þarf væntanlega að sætta sig við að sjá Breiðablik vinna tvöfalt. vísir / guðmundur

...Fyrst og fremst var erfitt að kveðja allt fólkið í Krikanum, sem ég á eftir að sakna svakalega mikið. Ég fann mig mjög vel þarna, þannig að það verður erfitt að vera ekki í kringum þetta fólk, en fótboltalega var ég mjög tilbúin að taka næsta skref.“

Heimilislegt að hafa Íslending í liðinu

Svo hjálpar líka eflaust að hjá Valeranga er einn Íslendingur fyrir, vinstri bakvörðurinn Sædís Rún Heiðarsdóttir verður með Örnu í vörninni.

„Við höfum verið saman í landsliðinu þannig að ég þekkti hana ágætlega fyrir. Það er mjög dýrmætt að hafa Íslending hérna og gerir þetta heimilislegra en hinar stelpurnar hafa líka tekið mjög vel á móti mér.

Þetta virðist vera mjög þéttur og skemmtilegur hópur en það er gott að hafa Sædísi hérna, til að þýða og svona… Ég er ekki farin að tala norskuna alveg strax.“


Tengdar fréttir

Arna semur við Vålerenga

Arna Eiríksdóttir, fyrirliði FH, hefur samið við Vålerenga í Noregi. Hún skrifar undir þriggja ára samning við félagið.

Arna komin á blað í Noregi

Arna Eiríksdóttir skoraði eitt marka Vålerenga í 4-0 sigri á Kolbotn í efstu deild norska boltans. Þá gaf Dilja Ýr Zomers stoðsendingu í 5-1 útisigri Brann á Lilleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×