Innlent

Breytingar í vændum á skrif­stofu for­seta

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Halla Tómasdóttir er forseti Íslands.
Halla Tómasdóttir er forseti Íslands.

Breytingar hafa orðið og eru í vændum á skrifstofu embættis forseta Íslands. Prófessor í bókmenntafræði hefur tekið til starfa og forsætisráðherra hyggst leyfa forseta að ráða sér aðstoðarmann. Þrautreyndur skrifstofustjóri fer brátt á eftirlaun skömmu eftir að sérfræðingur leitaði á önnur mið.

Jón Karl Helgason, prófessor í bókmenntafræði, hefur tekið til starfa hjá forseta Íslands. Á heimasíðu embættisins er hann titlaður sérfræðingur. Heimildir fréttastofu herma að einungis sé um tímabundna ráðningu að ræða en hún var gerð án auglýsingar. Á heimasíðu Háskóla Íslands er Jón Karl titlaður sem prófessor og kennari fyrir nemendur sem stunda nám í íslensku sem annað tungumál. 

Árni Sigurjónsson, skrifstofustjóri skrifstofu forseta, verður sjötugur á árinu og verður hann því að láta af störfum samkvæmt lögum. Árni hefur gegnt starfi skrifstofustjóra frá árinu 2006 en hann er líkt og Jón Karl með doktorsgráðu í bókmenntafræði. Að óbreyttu verður embættið að auglýsa starf skrifstofustjóra.

Í byrjun sumars tilkynnti Una Sighvatsdóttir, fyrrverandi sérfræðingur á skrifstofu forseta, að hún hefði ákveðið að róa á ný mið. Í samtali við Vísi sagði hún ástæðuna þá að hún hefði ekki fundið sér stað í breytingum sem fram undan væru á skrifstofunni.

Þá er möguleiki er á að það bætist við starfsmannafjöldann á næsta ári. Á þingmálaskrá Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra er frumvarp sem gerir forseta kleift að ráða sérstakan aðstoðarmann forseta.

Nái frumvarpið í gegnum þingið fær Halla Tómasdóttir að handvelja sinn eigin aðstoðarmann án þess að auglýsa stöðuna, með sama hætti og ráðherrar ráða sér aðstoðarmenn. Aðstoðarmaðurinn verður þó að láta af störfum þegar Halla hættir að gegna embættinu.

Ekki náðist í Jón Karl Helgason við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×