Erlent

Rúss­neskum herþotum flogið inn í loft­helgi Eist­lands

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórar MiG-31 herþotur á flugi yfir Moskvu. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Fjórar MiG-31 herþotur á flugi yfir Moskvu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/MAXIM SHIPENKOV

Þremur rússneskum herþotum af gerðinni MiG-31 var í dag flogið inn í lofthelgi Eistlands. Þar mun þeim hafa verið flogið í um tólf mínútur áður en þeim var fylgt út úr lofthelginni af ítölskum flugmönnum F-35 þota á vegum Atlantshafsbandalagsins.

Flugvélunum ku hafa verið flogið inn í lofthelgina yfir Finnlandsflóa og það án leyfis frá yfirvöldum í Eistlandi. Flugmenn herþotanna svöruðu ekki skilaboðum flugumferðarstjóra í Eistlandi. Þá eru þeir einnig sagðir hafa flogið í átt að Tallinn, höfuðborg Eistlands.

MiG-31 herþotur geta meðal annars borið ofurhljóðfráar stýriflaugar.

Samkvæmt yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Eistlands er þetta í fjórða sinn sem Rússar fara inn fyrir lofthelgi ríkisins en yfirgangurinn í dag er sagður sá lang alvarlegasti.

Sendiherra Rússlands hefur verið kallaður á teppið í Tallinn.

Margus Tsahkna, utanríkisráðherra Eistlands segir Rússa leggja meira kapp á að herskáa hegðun sem þessa og mæta þurfi henni af hörku.

Þotunum mun hafa verið flogið inn í lofthelgi Eistlands yfir Finnlandsflóa og í átt að Tallinn.

Ekki einangrað atvik

Stutt er síðan nítján rússneskum drónum var flogið inn í lofthelgi Póllands sem olli miklum taugatitringi þar í landi og víðar í Evrópu. 

Ráðamenn í Póllandi eru harðir á því að ekki hafi verið um mistök að ræða, eins og Rússar hafa haldið fram. Þess í stað segja þeir að Rússar vilji með þessu láta reyna að varnir og samheldni NATO.

Rússneskir drónar hafa einnig farið inn í lofthelgi Rúmeníu, sem er einnig í NATO.

Fyrr í vikunni sagði Dmitrí Peskóv, talsmaður Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, að Rússar ættu „augljóslega“ í stríði við ríki NATO, vegna stuðnings þeirra við Úkraínu.

Ummælin lét Peskóv falla eftir að Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, sem var staddur í Kænugarði í Úkraínu, sagði að NATO væri ekki í stríði við Rússa.

Kaja Kallas, yfirmaður utanríkis- og öryggismála Evrópusambandsins, segir að um gífurlega alvarlega ögrun sé að ræða. Þetta sé í þriðja sinn á nokkrum dögum sambærilegt atvik eigi sér stað í lofthelgi ESB.

Hún segir einnig að Pútín sé að láta reyna á seiglu Vesturlanda og ekki megi sýna veikleika gegn honum.

Ursula von der Leyen, forseti Framkvæmdastjórnarinnar, opinberaði í morgun enn frekari refsiaðgerðir gegn Rússlandi.

Talskona NATO segir þetta enn eitt dæmið um óvarlega hegðun Rússa og einnig dæmi um viðbrögð NATO. Hún heldur því fram að sveitir NATO hafi brugðist tafarlaust við, þó rússnesku herþoturnar hafi verið í lofthelgi Eistlands í tólf mínútur.

Árið 2015 var rússneskri herþotu flogið inn fyrir lofthelgi Tyrklands frá Sýrlandi. Hún hafði verið inn í lofthelgi Tyrklands í tæpar tuttugu sekúndur þegar Tyrkir skutu á hana og skutu hana niður.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×