Viðskipti innlent

Eftir­litið veður í Veður­stofuna

Árni Sæberg skrifar
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. vísir/arnar

Samkeppniseftirlitið hefur sent Veðurstofu Íslands erindi þar sem brýnt er fyrir Veðurstofunni að halda samkeppnisrekstri stofnunarinnar rækilega aðskildum frá annarri starfsemi og birta upplýsingar um aðskilnaðinn opinberlega.

Frá þessu greinir Félag atvinnurekenda á vef sínum en tilmæli Samkeppniseftirlitsins eru til komin vegna bréfaskrifa milli FA og Veðurstofunnar vegna þátttöku Veðurstofunnar í útboðum, í beinni samkeppni við einkafyrirtæki. Í tilkynningu FA segir að félagið fagni tilmælum samkeppnisyfirvalda til Veðurstofunnar og bendi á að þau eigi við um fleiri opinber fyrirtæki og stofnanir.

Skilja skuli samkeppnisrekstur frá ríkisstyrktum rekstri

Þá segir að forsaga málsins sé sú að FA hafi sent Veðurstofunni erindi í apríl síðastliðnum í framhaldi af því að félagið fékk ábendingar um að stofnunin tæki þátt í verðkönnunum og útboðum, til dæmis á mælingaþjónustu, í beinni samkeppni við einkafyrirtæki. 

FA hafi bent á að engin leið væri að átta sig á því, út frá upplýsingum á vef og í ársskýrslum Veðurstofunnar, hvort skilyrðum laga um Veðurstofuna væri fullnægt, en þar segi að þann hluta starfsemi Veðurstofunnar sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði skuli „skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins og skal endurgjald vegna hans taka mið af markaðsverði“. Veðurstofan skuli setja viðmiðunargjaldskrá um þessi verkefni og gefa hana út.

„FA fann enga gjaldskrá og engar upplýsingar um fjárhagslega aðskilnaðinn.“

Félagið hafi einnig bent á að engar upplýsingar fyndust um hvernig Veðurstofan uppfyllti skilyrði varðandi samkeppnisrekstur, sem samkeppnisráð [nú Samkeppniseftirlitið] hafi sett stofnuninni með ákvörðun nr. 13/2002, en þar hafi meðal annars verið kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisstarfsemi frá öðrum rekstri. FA hafi beint ýmsum spurningum til Veðurstofunnar um hvernig væri farið að ákvæðum laganna og fyrirmælum SE.

Dró tilboð til baka

„Gegnsæi um samkeppnisrekstur Veðurstofunnar skiptir höfuðmáli fyrir fyrirtæki, sem keppa við opinbera stofnun á samkeppnismarkaði um veitingu þjónustu. Án þess gegnsæis, sem lög um stofnunina og fyrirmæli samkeppnisyfirvalda kveða á um, hafa keppinautar Veðurstofunnar enga vissu fyrir því að þjónustan sé ekki niðurgreidd með framlögum skattgreiðenda til stofnunarinnar,“ hafi sagt í bréfi FA. 

Félagið hafi jafnframt farið fram á að Veðurstofan drægi til baka tilboð í verkefni, sem stofnunin hefði gert í samkeppni við einkafyrirtæki. Við því hafi Veðurstofan orðið snemma í maí.

Lögum ekki fylgt

Í júní hafi svar borist frá Veðurstofunni, en þar hafi meðal annars komið fram að engin gjaldskrá hefði verið birt og ekki væri til sjálfstætt reikningshald um samkeppnisreksturinn. Þetta svar hafi nú orðið Samkeppniseftirlitinu tilefni til að senda stofnuninni erindi. Í bréfi SE segi að af svari Veðurstofunnar megi ráða að fyrirmælum laga um Veðurstofuna hafi ekki verið fylgt með fullnægjandi hætti. 

„Þá virðist stofnunin ekki hafa fylgt ákvörðunarorðum ákvörðunar nr. 13/2002 m.a. með því að halda fjárhagslegum aðskilnaði annars vegar á milli þeirrar starfsemi Veðurstofu Íslands sem er á samkeppnismarkaði og hins vegar þeirri starfsemi sem Veðurstofunni er skylt að sinna samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum,“ segi í bréfi SE.

Samkeppniseftirlitið rifji upp hvernig fjárhagslegum aðskilnaði skuli háttað og minni á að með honum sé „reynt að tryggja að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur með fé frá verndaðri starfsemi sem m.a. nýtur opinberra fjárframlaga.“ 

Samkeppniseftirlitið leggi áherslu á að „Veðurstofan tryggi án tafar fjárhagslegan aðskilnað og sjálfstætt reikningshald um þann rekstur sem er í samkeppnisrekstri við einkarekin fyrirtæki á markaði í samræmi við ákvörðun samkeppnisráðs nr. 13/2002 og 2. mgr. 4. gr. laga um Veðurstofu Íslands nr. 70/2008. Þannig sé upplýst um þann rekstur sem telst til samkeppnisrekstrar, fyrirkomulag aðskilnaðarins og uppgjör. Er þetta meðal annars brýnt þegar stofnunin tekur þátt í opinberum útboðum, en það er lykilatriði í framkvæmd útboða að allir þátttakendur njóti jafnræðis og að ekki sé unnt að draga heilindi útboða í efa.“

Upplýsingar þurfi að vera opinberar

Jafnframt segi SE brýnt að aðskilnaðurinn sé gerður aðgengilegur, það er að greinargóðar upplýsingar séu gefnar um hinn fjárhagslega aðskilnað opinberlega, þar á meðal á heimasíðu Veðurstofunnar. Þannig sé gerð grein fyrir því hvaða rekstur telst til samkeppnisrekstrar og hvernig stofnunin hagi fjárhagslegum aðskilnaði milli annars vegar þess rekstrar sem rekinn er að hluta til eða að öllu leyti af opinberu fé og hins vegar þeirrar starfsemi sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila.

Í bréfi SE segi jafnframt „Árétta ber í þessu sambandi að þegar opinberir aðilar stunda samkeppnisrekstur á markaði eru gerðar strangar kröfur til þeirra. Segja má að kröfurnar sem gerðar eru til opinberra aðila sem stunda rekstur sem er eða gæti verið í samkeppni við einkaaðila, samhliða því að inna af hendi opinbera þjónustu, séu áþekkar kröfum sem gerðar eru til fyrirtækja sem hafa svonefnda markaðsráðandi stöðu. Vegna þessa hefur Samkeppniseftirlitið, á grundvelli 14. gr. samkeppnislaga, heimild til að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað. Markmiðið með honum er að taka af allan vafa um það að samkeppnisrekstur opinberra aðila sé greiddur niður með þeirri starfsemi opinbers aðila sem nýtur verndar. Þannig þarf ekki að liggja fyrir að hegðun hins opinbera aðila hafi skaðleg áhrif á samkeppni, heldur einungis að opinber aðili sé með hluta af rekstri sínum í samkeppni við einkaaðila.“

Minna á sams konar bréf til rektors

Í tilkynningu FA er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra félagsins, að félagið fagni þessum tilmælum Samkeppniseftirlitsins til Veðurstofunnar.

Það er því miður alltof mikið um að ríkisstofnanir og -fyrirtæki séu í beinni samkeppni við einkafyrirtæki án þess að skilyrðum um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisstarfseminnar sé fylgt. Þessi tilmæli Samkeppniseftirlitsins eru mikilvægt fordæmi í ýmsum öðrum málum sem við rekum gagnvart opinberum stofnunum, sem neita að birta fullnægjandi upplýsingar um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisrekstrar. Þar er skemmst að minnast bréfs okkar til rektors Háskóla Íslands vegna fjárhagslegs aðskilnaðar Endurmenntunar HÍ frá annarri starfsemi skólans. Við höfum fengið þau svör að það mál hafi verið tekið til endurnýjaðrar skoðunar og það skilar vonandi góðri niðurstöðu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×