Erlent

Sam­þykkja að fram­selja Úkraínu­mann vegna Nord Stream-skemmdar­verkanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Maðurinn sem var handtekinn á Ítalíu er talinn hafa verið um borð í skemmtisnekkjunni Andrómedu sem úkraínsk sérsveit er talin hafa notað til þess að fremja skemmdarverkin á Nord Stream-gasleiðslunum árið 2022.
Maðurinn sem var handtekinn á Ítalíu er talinn hafa verið um borð í skemmtisnekkjunni Andrómedu sem úkraínsk sérsveit er talin hafa notað til þess að fremja skemmdarverkin á Nord Stream-gasleiðslunum árið 2022. Vísir/Getty

Ítalskur dómstóll gaf grænt ljós á framsal úkraínsks karlmanns sem er grunaður um aðild að skemmdarverkunum á Nord Stream-gasleiðslunum í Eystrasalti í dag. Lögmenn hans segjast ætla að nýta áfrýjunarrétt til þess ítrasta.

Maðurinn, sem hefur aðeins verið nefndur Serhii K., var handtekinn nærri Rimini á Ítalíu í síðasta mánuði. Hann er grunaður um að hafa átt þátt í að skipuleggja skemmdarverkin á rússnesku gasleiðslunum árið 2022, þó ekki um að hafa sprengt þær upp sjálfur.

Þýsk yfirvöld gáfu út handtökuskipun á hendur meintum höfuðpaur hópsins sem er talinn hafa sprengt leiðslurnar upp. Hann er talinn Úkraínumaður, búsettur í Póllandi, sem hafi leigt snekkju í Þýskalandi sem hópurinn notaði til þess að sigla að leiðslunum í Eystrasalti. Kafarar hafi svo komið fyrir sprengjum á leiðslunum.

Úkraínsk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að hafa átt nokkra aðild að skemmdarverkunum. Wall Street Journal sagði frá því á sínum tíma að hópur úkraínskra herforingja og kaupsýslumanna hefði lagt á ráðin um skemmdarverkin í óþökk Volodýmýrs Selenskíj forseta.

Lögmenn Serhii K. segja að þeir ætli að áfrýja niðurstöðu ítalska dómstólsins. Þeir ætli með máli alla leið upp á æðsta dómstig landsins áður en yfir lýkur, að því er kemur fram í frétt þýska fjölmiðilsins DW.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×