Handbolti

ÍR og ný­liðarnir á toppnum

Sindri Sverrisson skrifar
KA/Þór hefur byrjað leiktíðina frábærlega.
KA/Þór hefur byrjað leiktíðina frábærlega. @kaakureyri

Eftir tvær umferðir af Olís-deild kvenna í handbolta eru það aðeins ÍR-ingar og nýliðar KA/Þórs sem enn eru með fullt hús stiga. Heil umferð var spiluð í dag.

Haukar unnu Val 24-21 á Hlíðarenda í uppgjöri bikar- og Íslandsmeistaranna, en nánar má lesa um þann leik í greininni hér að neðan.

KA/Þór vann svo ÍBV með fimm marka mun á Akureyri, 30-25, eftir að hafa unnið Stjörnuna í fyrsta leik. Tinna Valgerður Gísladóttir var markahæst Akureyringa með sjö mörk en alls skoruðu níu leikmenn liðsins í leiknum. Sandra Erlingsdóttir (7 mörk), Birna Berg Haraldsdóttir (6) og Alexandra Ósk Viktorsdóttir (5) voru markahæstar gestanna.

ÍR vann Stjörnuna í Garðabæ, 32-26, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-11. Sara Dögg Hjaltadóttir var þar langmarkahæst með tólf mörk líkt og í sigrinum gegn Haukum í fyrstu umferðinni.

Fram vann svo níu marka sigur gegn Selfossi, 40-31, þar sem Alfa Brá Oddsdóttir skoraði ellefu mörk og varð markahæst en Harpa María Friðgeirsdóttir kom næst með sjö mörk. Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoraði níu mörk fyrir gestina sem líkt og Stjörnukonur eru enn án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×