Íslenski boltinn

Hæsti­réttur hafnaði kröfu KA að taka mál Arnars fyrir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Grétarsson stýrði KA í rúm tvö ár. Hann þjálfar Fylki í dag.
Arnar Grétarsson stýrði KA í rúm tvö ár. Hann þjálfar Fylki í dag. vísir/vilhelm

Dómur Landsréttar í máli Arnars Grétarssonar gegn KA stendur óhaggaður. Hæstiréttur hafnaði kröfu KA um að taka málið fyrir.

Í maí komst Héraðsdómur Norðurlands eystra að þeirri niðurstöðu KA þyrfti að greiða Arnari tæplega ellefu milljónir króna.

Arnar höfðaði mál gegn KA vegna árangurs liðsins í Sambandsdeild Evrópu sumarið 2023. Arnar hætti sem þjálfari KA haustið 2022 en í samningi hans var ákvæði um að hann ætti rétt á tíu prósenta hluta af Evrópugreiðslum frá UEFA meðan hann stýrði liðinu.

Undir stjórn Arnars endaði KA í 2. sæti Bestu deildarinnar 2022 og vann svo tvö einvígi í Sambandsdeildinni undir stjórn Hallgríms Jónassonar sumarið eftir.

KA var dæmt til að greiða Arnari 8.779.998 krónur auk dráttarvaxta frá 5. nóvember 2023. Þá átti KA greiða tvær milljónir króna í málskostnað.

KA áfrýjaði dómi Héraðsdóms Norðurlands til Landsréttar en tapaði því. Beiðni KA um að Hæstiréttur tæki málið fyrir einnig hafnað í fyrradag. Þar segir að ekki verði séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar hafi verið bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjun var því hafnað. 

Arnar tók við KA snemma sumars 2020 og stýrði liðinu fram í september 2022 þegar Hallgrímur, sem var aðstoðarmaður hans, tók við.

Arnar tók við Val fyrir tímabilið 2023 en stýrir í dag Fylki. Hann var ráðinn þjálfari Árbæjarliðsins um miðjan júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×