Handbolti

Mætti sköll­ótt til baka að­eins fimm dögum eftir lyfja­með­ferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem lætur ekkert stoppa sig til að spila íþróttina sem hún elskar.
Camilla Herrem lætur ekkert stoppa sig til að spila íþróttina sem hún elskar. @nrk/EPA/HENNING BAGGER

Fyrir aðeins tveimur mánuðum síðan þá sagði norska handboltagoðsögnin Camilla Herrem frá því á samfélagsmiðlum sínum að hún hefði greinst með krabbamein. Á dögunum var hún mætt aftur inn á handboltavöllinn.

Herrem er ein sigursælasta handboltakona sögunnar og lykilkona í landsliði Þóris Hergeirssonar í fimmtán ár. Hún er núna 38 ára gömul og kvaddi norska landsliðið á sama tíma og Þórir eftir að hafa unnið ellefu gullverðlaun og sautján verðlaun á stórmótum.

Herrem fór í aðgerð þar sem meinið var fjarlægt. Við tók síðan erfið krabbameinsmeðferð.

Á þriðjudaginn í síðustu viku lauk Herrem lyfjameðferðinni sinni og aðeins fimm dögum síðar var hún komin aftur inn á handboltavöllinn með liði sínu Sola HK. Hún skoraði fjögur mörk í leiknum sem Sola vann einmitt með fjórum mörkum.

Hún missti allt hárið í lyfjameðferðinni en lét það ekki stoppa sig heldur mætti sköllótt inn á handboltavöllinn.

Það er óhætt að segja að hetjuleg barátta hennar og þrautseigja hafi vakið mikla athygli í Noregi.

Það er staðreynd að æfingar hjálpa sjúklingum í krabbameinsmeðferð og Herrem gerði sér því gott með því að halda sér áfram í æfingu.

Það er samt ekkert grín að gera það í miðri lyfjameðferð sem er einn eitt dæmið um hinn gríðarlega andlega styrk sem Herrem býr yfir.

Baráttan er ekki búin því að Herrem á eftir tólf vikur af meðferð þótt að lyfjameðferðin sjálf sé að baki.

Herrem skoraði á árunum 2006 til 2024 samtals 951 mark í 332 landsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×