Innlent

Vill skipta út borgarstjórnarflokknum en halda Hildi inni

Agnar Már Másson skrifar
Hildur Björnsdóttir er núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni. Halldór Halldórsson var oddviti á árunum 2014 til 2018.
Hildur Björnsdóttir er núverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni. Halldór Halldórsson var oddviti á árunum 2014 til 2018. Samsett

Fyrrverandi oddviti Sjálfstæðislokksins í Reykjavík vill að flokkurinn haldi Hildi Björnsdóttur sem oddvita en raða nýju fólki í hin sætin á listanum. Hann segir að núverandi borgarstjórnarflokkur sé ósamhentur og hafi lítið breyst síðan 2018, þegar hann hagaði sér „eins og það væru alltaf einhver læti í fjölskyldunni.“ Þá lýsir Halldór óánægju yfir því að flokkurinn máli upp borgarlínuna sem ömurlega.

Átta mánuðir eru til sveitarstjórnarkosninga og væntanlega eru stjórnmálaflokkar byrjaðir að leggja grunn að kosningabaráttu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mælst með um þrjátíu prósenta fylgi í Reykjavík í nýjustu könnunum, jafnvel um fjörutíu prósent í austurborginni, og mælist því stærstur í borginni. Þrátt fyrir að flokkurinn hafi hlotið flest atkvæði í síðustu og þarsíðustu borgarstjórnarkosningum hefur honum gengið illa að finna samstarfsflokka. Hefur borgarstjórnarflokkurinn oft áður verið gagnrýndur fyrir að vera ekki samhentur.

Halldór Halldórsson, sem var oddviti Sjálfstæðisflokksins frá 2014 til 2018, ræddi borgarpólitíkina í hlaðvarpi Þjóðmála um helgina, sem er í stjórn Gísla Freys Valdórssonar. 

Með Halldóri sem gestur er Einar Þorsteinsson, oddviti framsóknar sem fyrrum var borgarstjóri uns hann gekk úr samstarfi með Samfylkingu og Viðreisn í von um að stofna til nýs samstarfs með sjálfstæðismönnum, Viðreisn og Flokki fólksins — en það rann fljótt út í sandinn þegar sjálfstæðismönnum var enn og aftur settur fótur fyrir dyrnar, í þetta skipti af Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins. 

Halda í sama oddvita og stilla upp rest

„Hreinn meirihluti er nokkuð fjarlægður,“ veltir Halldór fyrir sér í hlaðvarpinu. „Það hefur ekki verið síðan í kosningum 1990 í tilfelli Sjálfstæðisflokksins og þá var Davíð Oddsson oddviti.“

Hann bendir á að Hildur sé ellefti oddviti flokksins síðan sjálfstæðismenn voru í meirihluta. Meðallífaldur oddvita sé skemmri en fjögur ár.

„Þannig að það gæti verið góð hugmynd fyrir Sjálfstæðisflokkinn að halda í sama oddvita og jafnvel stilla upp lista þar sem flokkurinn fengi fólk héðan og þaðan sem myndi jafnvel ekki gefa kost á sér; fólk úr atvinnulífinu, sterkir einstaklingar sem myndu ekki láta sjá sig í pólitík nema þeir væru handvaldir,“ bætir fyrrverandi oddvitinn við.

Flokkurinn ekkert samhentari í dag en í gær

Halldór segir borgarstjórnarflokkinn ekki vera samhentan í dag, ekki frekar en þegar hann sjálfur var oddviti. „Hann var það ekki heldur þegar ég var oddviti 2014 til 2018.“  Hann bendir enn fremur á að sjaldan hafi verið skipt um oddvita heldur hætta þeir sjálfir. 

„Þeir hafa bara valið að fara.“

Þá rekur Halldór söguna af því þegar hann ákvað að bjóða sig ekki aftur fram í borgarstjórn. 

„Að mæta inn á fund vikulega með þennan hóp sem var ekki samstilltur,“ segir hann um gamla borgarstjórnarflokkinn sinn, „eins og það séu alltaf einhver læti í fjölskyldunni. Þú vilt geta tekist á innan hópsins, vilt geta komist að niðurstöðu og sú niðurstaðar gildi,“ segir hann. 

Gísli þáttarstjórnandinn fullyrðir að staðan sé enn svona og Halldór tekur undir. 

„Þetta er að hluta til sama fólkið.“

„Þetta er ekki hægri-vinstri mál“

Þá ræða þeir samgöngumálin en Halldór kveðst ósáttur með það hvert borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna hafi snúið umræðunni um borgarlínuna. Hann bendir á að borgarlína sé bara eitt púsl í stórri áætlun til að laga umferðarvanda í Reykjavík, og til þess þurfi göng, stokka, mislæg gatnamót, hjólastíga, göngustíga og borgarlínu.

„Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hefur náð einhvern veginn að láta þetta hverfast allt um það hvað borgarlínan verði ömurleg, allt niður í það hvernig sætin eru á litinn og að þetta sé allt alveg glatað án þess að geta fært almenilega rök fyrir því. Við vitum það að það þarf forgangsakreinar fyrir almenningssamgöngur, þetta snýst um það.“ 

Hann viðurkennir þó að hann geri alls konar athugasemdir við ýmislegt annað varðandi borgarlínu, eins og á Suðurlandsbraut þar sem sé óþarflega farið inn á bílastæði atvinnurekenda.

„Þetta er ekki hægri-vinstri mál,“ segir Halldór.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×