Innlent

Vinnsla stöðvuð í Vatnsfellsvirkjun vegna leka

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vatnsfellsvirkjun er 90 MW vatnsaflsvirkjun í Þjórsá sem var reist á árunum 1999 til 2001
Vatnsfellsvirkjun er 90 MW vatnsaflsvirkjun í Þjórsá sem var reist á árunum 1999 til 2001

Vinnsla hefur verið stöðvuð í Vatnsfellsvirkjun vegna leka nálægt inntaksmannvirkjum stöðvarinnar. Verið er að tæma inntakslónið svo hægt sé að greina ástæður lekans. Til skamms tíma mun lokunin ekki hafa áhrif á framboð raforku en langtímaáhrif eru ekki enn ljós.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun. Þar segir að vinnslan hafi verið stöðvuð eftir að varð vart við leka nálægt inntaksmannvirkjum stöðvarinnar í gær. 

Verið er að tæma inntakslónið til að greina nánar ástæður lekans. „Inntakslónið er lítið og gert ráð fyrir að tæmingu þess ljúki á morgun, mánudag,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að vinnslustöðvunin muni ekki hafa áhrif á framboð raforku til skamms tíma.

„Gott innrennsli hefur verið á öllum vatnasvæðum Landsvirkjunar síðustu daga og vikur. Blöndulón er fullt og stærstu miðlunarlón Landsvirkjunar, Hálslón og Þórisvatn, eru við það að fyllast. Stöðvun Vatnsfellsstöðvar mun því ekki hafa áhrif á framboð raforku úr vinnslukerfi Landsvirkjunar til skamms tíma,“ segir í tilkynningunni.

Möguleg áhrif til lengri tíma verði hins vegar ekki ljós fyrr en lónið er tómt og ástæður lekans hafa verið greindar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×