Fótbolti

Byrjaði ekki einn leik á EM en var samt valin í lið mótsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chloe Kelly fagnar með bikarinn og við hlið liðsfélaga sinna í Evrópumeistaraliði Englands.
Chloe Kelly fagnar með bikarinn og við hlið liðsfélaga sinna í Evrópumeistaraliði Englands. Getty/Maja Hitij

England og Spánn áttu langflesta leikmenn í úrvalsliði Evrópumótsins í Sviss eða átta af ellefu. Evrópumeistarar Englands eru með fjóra leikmenn í liðinu og silfurlið Spánar með aðra fjóra þar af alla miðjumenn liðsins.

Úrvalsliðið var valið af sérstakri tækninefnd UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, á mótinu.

Það vekur athygli en kemur alls ekki á óvart að hin enska Chloe Kelly er í úrvalsliðinu. Kelly tryggði Englandi sigur í vítakeppninni en hafði áður komið inn á og lagt upp jöfnunarmark liðsins.

Kelly átti mikinn þátt í mörgum endurkomum enska liðsins á mótinu. Eitt það ótrúlegasta við hennar frammistöðu er að hún byrjaði ekki einn leik á öllu Evrópumótinu en var samt valin í lið mótsins.

Enski markvörðurinn Hannah Hampton er í markinu en hún varði hverja vítaspyrnuna á fætur annarri í tveimur vítakeppnum enska liðsins og átti frábært mót.

Enski bakvörðurinn Lucy Bronze komst líka í úrvalsliðið en hún spilaði allt mótið með sprungu í sköflungnum. Þvílík harka.

Alessia Russo er fjórði Englendingurinn í liðinu en hún skoraði mark enska liðsins í úrslitaleiknum. Russo var óheppin með mörk á mótinu en bjó til mörg mörk fyrir liðsfélaga sína.

Miðjumennirnir voru allir frá Spáni eða þær Aitana Bonmatí, Patri Guijarro og Alexia Putellas. Bonmatí hafði áður verið valin besti leikmaður mótsins.

Irene Paredes, fyrirliði og miðvörður spænska liðsins var sú fjórða frá Spáni í úrvalsliðinu.

Hinar þrjár í úrvalsliðinu, sem komu ekki frá England eða Spáni, voru ítalski varnarmaðurinn Elena Linari, þýski varnarmaðurinn Franziska Kett og þýski sóknarmaðurinn Jule Brand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×