Innlent

Ó­sam­mála Náttúru­fræði­stofnun og segja veiðar á lunda for­svaran­legar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Feðgarnir Helgi Bragason og Bragi Steingrímsson ráða ríkjum í Hellisey en veiðifélagið í eynni er í forsvari fyrir Bjargveiðimannafélag Vestmannaeyja þetta sumarið.
Feðgarnir Helgi Bragason og Bragi Steingrímsson ráða ríkjum í Hellisey en veiðifélagið í eynni er í forsvari fyrir Bjargveiðimannafélag Vestmannaeyja þetta sumarið. Vísir/Ívar Fannar

Lundaveiði er heimiluð í Vestmannaeyjum frá og með 25. júí og mega standa yfir til 15. ágúst. Veiðimenn í Eyjum eru ósammála mati Náttúrufræðistofnunar Suðurlands að ofveiði hafi átt sér stað síðustu ár sem stuðlað hafi að fækkun lundans. 

Lundaveiði hér á landi er leyfð frá 1. júlí til 15. ágúst en í Vestmannaeyjum er veiðin takmörkuð við styttra tímabil. Formaður Bjargveiðimannafélags Vestmannaeyja segir þær vel forsvaranlegar en í umsögn Náttúrusfræðistofu Suðurlands kemur fram að veiðar séu ósjálfbærar. 

„Við erum að gera þetta með ábyrgum hætti en erum ekki í beinni samvinnu við vísindamenn eða náttúrustofu en starfsmenn þar ættu kannski að nýta betur þekkingu og reynslu eldri úteyjarmanna og veiðimanna,“ segir Helgi Bragason formaður Bjargveiðimannafélags Vestmannaeyja sem var í viðtali í kvöldfréttum Sýnar ásamt föður sínum Braga.

„Okkar umsögn [til Bæjarráðs Vestmannaeyja] var að veita leyfi frá 25. júlí til 15. ágúst þannig að við erum að nýta innan við helminginn af heildartíma sem hugsanlega væri hægt að fara í,“ bætir Helgi við.

Staðan hafi snarbreyst síðustu ár

Alls eru tíu veiðifélög í úteyjunum við Eyjar og giskar Bragi á að um þrjátíu manns séu um hvert félag. Lundaveiðimenn séu því fjöldahreyfing í Vestmannaeyjum.

Síðustu ár hefur verið starfrækt pysjueftirlit í Eyjum þar sem lundapysjur eru vigtaðar og mældar við björgun áður en þeim er sleppt á ný. Pysjum hefur fjölgað síðustu árin og þeir feðgar segja eftirlitið gefa góða mynd af stöðu lundans í Eyjum, það þurfi ekki annað að gera en að skoða tölurnar þar til að sjá ástandið á lundastofninum.

„Þetta fór mjög mikið niður á við þegar sandsílið hvarf, það hvarf í nokkuð mörg ár. Síðustu tvö og nú þriðja árið hefur þetta snarbreyst,“ segir Bragi.

„Fegurðin og annað er svo bara krydd í tilveruna“

Þeir feðgar segja veiðimönnum mjög umhugað um að veiðar séu stundaðar af ábyrgð. Þeir eru ósammála umsögn Náttúrufræðistofnunar Suðurlands um að veiðar hafi stuðlað að stofnfækkun lundans síðasta áratug.

„Við vorum úti í Hellisey og við sáum úti í eyju og það var mikið af fugli sem er að bera fisk í bú,“ segir Helgi.

„Við teljum mikilvægt að við séum úti í eyjunum að hjálpa til við verndun stofnsins. Til dæmis í okkar eyju er súlan af taka af byggðinni hjá lundanum. Við höfum markvisst verið að ýta henni burt í klettana, strengja bönd yfir og halda henni frá byggðinni. Það held ég að hafi miklu meiri þýðingu en þessi fjöldi lunda sem eru veiddir.“

Helgi segir að í Eyjum sé áætlað að veiða 2000 lunda þetta sumarið og telur það hafa litla þýðingu fyrir stofninn sem þeir feðgar giska á að samanstandi af jafnvel tveimur milljónum lunda. Fjárhagslega þýðingin fyrir veiðimenn sé engin en menningar- og sögulega séu veiðarnar mikilvægar fyrir þjóðarsál Eyjamanna.

Hvað hefur Hellisey framyfir hinar úteyjarnar?

„Ég held það sé nú aðallega fólgið í mannskapnum, fegurðin og annað er svo bara krydd í tilveruna. En aðallega mannskapurinn myndi ég segja,“ sagði Bragi hlæjandi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×