Viðskipti innlent

Al­þjóð­legt bílafyrirtæki kaupir Öskju og systurfélög

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Askja er meðal annars umboðsaðili Kia og Honda á Íslandi.
Askja er meðal annars umboðsaðili Kia og Honda á Íslandi. Askja

Bílaumboðið Askja, Una, Dekkjahöllin og Landfari hafa verið seld til alþjóðlega bílafyrirtækisins Inchcape, sem sérhæfir sig í sölu og dreifingu bifreiða á heimsvísu og er skráð í kauphöllina í Lundúnum.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Vekru ehf. en engar upplýsingar eru gefnar um kaupverðið. Afhending félaganna mun fara fram í september en Jón Trausti Ólafsson verður áfram forstjóri.

Askja er með umboðið fyrir Kia, Honda og Mercedes-Benz, svo eitthvað sé nefnt, en Una er umboðsaðili XPENG á Íslandi. 

Samkvæmt tilkynningunni námu heildartekjur félaga Vekru um 27,5 milljörðum króna á ári að meðaltali en þar eru meðtaldar tekjur Lotus Car Rental og Hentar, sem eru ekki undir í umræddum viðskiptum. Hagnaður fyrir skatta nam um 1,35 milljörðum króna á ári að meðaltali.

Vekra mun áfram eiga Lotus og rúmlega 16.000 fermetra fasteignasafn sem byggt hefur verið upp í tengslum við rekstur félaganna.

Jón Trausti Ólafsson verður áfram forstjóri.Askja

„Inchcape er leiðandi og óháður alþjóðlegur dreifingar- og söluaðili bifreiða með yfir 150 ára sögu og hefur verið skráð í kauphöllina í London síðan 1958. Hjá fyrirtækinu starfa meira en 16.000 manns á 38 mörkuðum um allan heim. Þannig sameinar Inchcape alþjóðlega sýn með staðbundinnni sérþekkingu á hverju markaðssvæði sem skilar sér í framúrskarandi þjónustu og árangri fyrir samstarfsaðila og auknum gæðum og betri upplifun viðskiptavina,“ segir í tilkynningunni.

„Kaup Inchcape á Öskju eru í samræmi við Accelerate+ stefnu Inchcape, sem miðar að því að vaxa inn á nýja og áhugaverða markaði þar sem miklir möguleikar eru fyrir hendi. Ísland er afar álitlegur kostur til þess að styrkja stöðu félagsins á Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu. Inchcape vinnur með mörgum af helstu bifreiðamerkjum heims og með kaupunum á Öskju verður Kia í fyrsta sinn hluti af vöruframboði félagsins. Heildartekjur Inchcape á síðasta ári námu um 10 milljörðum evra og hagnaður félagsins fyrir skatta var um 480 milljónir evra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×