Eignarhaldsfélagið Aztiq stofnaði Adalvo árið 2018 – þótt starfsemin hafi síðan ekki hafist í reynd fyrr en um ári síðar – og hefur það milligöngu um samninga milli lyfjafyrirtækja um skráningu og markaðssetningu samheitalyfja. Adalvo vinnur með meira en 170 lyfjafyrirtækjum í 140 löndum um allan heim, meðal annars öllum helstu samheitalyfjafélögunum eins og Sandoz, Stada og Teva, og hjá því starfa um 280 manns.
„Adalvo á það sameiginlegt með öðrum fyrirtækjum sem ég hef stofnað að markmið þess er að mæta aukinni eftirspurn um allan heim eftir hagkvæmari hágæða lyfjum. Þegar við stofnuðum Adalvo var ætlunin að gjörbylta mikilvægu sviði innan lyfjaiðnaðarins. Ég er gríðarlega stoltur af þeim árangri sem Adalvo og stjórnendur þess hafa náð á skömmum tíma og óska EQT til hamingju með að eignast þetta frábæra félag. Adalvo mun halda áfram blómstra með þeirra stuðningi. Ég hlakka til samstarfsins við EQT sem minnihlutaeigandi og að stuðla að áframhaldandi vexti Adalvo,” segir Róbert Wessman, stofnandi Aztiq, en hann hefur jafnframt verið stjórnarformaður Adalvo.
Ég er að selja frá mér alveg frábært félag. Það er hins vegar betra að selja heldur en að halda í það um leið og maður hefur ekki tíma til að sinna því almennilega.
Adalvo var ekki í formlegu söluferli þegar EQT, þriðja stærsta fjárfestingafélag heimsins með um 270 milljarða evra eignir í stýringu, ásamt öðrum stórum sjóðastýringarfélögum fóru að sýna félaginu áhuga undir lok síðasta árs, segir Róbert aðspurður í viðtali við Innherja. Þá höfðu á undanförnum tveimur árum verið seld nokkur sambærileg félög og Adalvo á mjög háum verðkennitölum.
„Ég var á báðum áttum á þeim tíma enda er félagið er í miklum vexti en við í stjórninni ræddum í framhaldinu hvort við ættum að skoða þessar fyrirspurnir. Við ákváðum að lokum að ræða nánar við EQT og það ferli endaði með bindandi kauptilboði,“ útskýrir hann, en gert er ráð fyrir viðskiptin klárist á seinni helmingi ársins. Félagið hans Róberts heldur eftir fimm prósenta hlut – það var fyrir söluna með mikinn meirihluta í Adalvo – en sjálfur verður hann ekki lengur í stjórn lyfjafyrirtækisins.
Róbert segist ekki tjáð sig um kaupverðið á Adalvo en evrópski fjárfestingarsjóðurinn Metric Capital Partners, sem kom inn í hluthafahópinn fyrir um ári síðan, fer með minnihluta í félaginu á móti Aztiq.
Samkvæmt heimildum Innherja er virði Adalvo í viðskiptunum hins vegar metið á um einn milljarð Bandaríkjadala, eða jafnvirði rúmlega 120 milljarða íslenskra króna, en sú fjárhæð inniheldur jafnframt að hluta greiðslur tengdar fjárhagslegum markmiðum í rekstri lyfjafyrirtækisins á næstu misserum og árum. Hagnaður Adalvo fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) verður yfir 100 milljónir dala á þessu ári og áætlanir gera ráð fyrir, byggt á samningum um sölu lyfja sem þegar er búið að gera, að hann verði um 160 til 170 milljónir dala á árinu 2026.
Bandaríski fjárfestingabankinn Jefferies var fjármálaráðgjafi Aztiq við söluna á Adalvo á meðan lögmannsstofan Hogan Lovells var lögfræðilegur ráðgjafi. Alþjóðlegi fjárfestingabankinn Evercore var hins vegar fjármálaráðgjafi EQT við kaupin.
„Alvotech er það sem skiptir mig öllu máli í dag“
Aztiq og Innobic Asia, dótturfélag fyrirtækjasamstæðunnar PTT sem er í meirihlutaeigu taílenska ríkisins, tilkynntu um það í nóvember 2021 að félögin hefðu náð samkomulagi um að festa kaup á öllu hlutafé í Adalvo ásamt 51 prósenta hlut í Lotus Pharmaceuticals af Alvogen. Kaupverðið á þeim tíma nam samtals 475 milljónum dala. Félagið hans Róberts heldur enn óbeint á liðlega tíu prósenta hlut í Lotus – eftir að hafa selt sig nokkuð niður á undanförnum árum – sem er verðmetinn í dag á um 200 milljónir dala. Aztiq keypti síðan út allan eignarhlut PTT í Adalvo snemma árs í fyrra í samfloti með Metric Partners.
„Við stofnuðum Adalvo með það í huga að þjónusta lyf sem við vorum að þróa fyrir bandarískan markað. Nafnið Adalvo kemur síðan fram árið 2020 og það er þá sem við ráðum lykilstarfsmenn og skerpum sýnina. Lyfjageirinn var á þessum tíma að færast yfir í flóknari og dýrari lyf, og þar sáum við tækifæri til að þróa samheitalyf í samstarfi við önnur fyrirtæki. Viðskiptamódelið hjá Adalvo er þannig að við seljum ekki beint til apóteka eða heilbrigðiskerfa – heldur til annarra lyfjafyrirtækja,“ útskýrir Róbert við Innherja, og heldur áfram:
„Í dag er Adalvo með yfir 130 lyf annaðhvort á markaði eða í þróun. Mörg þeirra eru mjög flókin, og eitt af þeim sem við erum hvað lengst komin með er samheitalyf fyrir Ozempic – sem við væntum að komi fljótlega á markað. Mikið af þróunarstarfinu hefur farið fram í samstarfi við önnur fyrirtæki, og við höfum byggt upp einstaka innanhústækni fyrir ákveðnar lyfjagerðir.
Ég hef verið að vinna að því að einfalda Aztiq-eignarhaldsstrúktúrinn minn. Það er ágætt að reyna að einfalda lífið og Alvotech er það sem skiptir mig öllu máli í dag.
Við ákváðum frekar að einblína á lyfjaþróunina sjálfa og að opna aðgang að hagkvæmari lyfjum fyrir sjúklinga – í stað þess að fara í að reisa eigin verksmiðjur. Félagið hefur að jafnaði vaxið um 50 til 60 prósent á ári,“ að sögn Róberts, en Adalvo selur ekki lyf undir sínu eigin nafni.
„Ég er að selja frá mér alveg frábært félag. Það er hins vegar betra að selja heldur en að halda í það um leið og maður hefur ekki tíma til að sinna því almennilega og eftirláta þá öðrum að taka við keflinu. Ég horfi á það þannig,“ segir Róbert, en hann er sem kunnugt er forstjóri og stjórnarformaður líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech – skráð á markað á Íslandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð – og félög honum tengd fara samanlagt með yfir sextíu prósenta hlut.
„Ég hef verið að vinna að því að einfalda Aztiq-eignarhaldsstrúktúrinn minn. Það er ágætt að reyna að einfalda lífið og Alvotech er það sem skiptir mig öllu máli í dag. Ég vil því ekki vera að verja takmörkuðum tíma mínum í önnur félög,“ útskýrir Róbert.
Vinna líka að sölu á Alvogen í Bandaríkjunum
Hlutabréfaverð Alvotech, sem hefur lækkað nokkuð skarpt undanfarnar vikur, er upp um nærri tvö prósent í Kauphöllinni hér heima í morgun eftir að tilkynnt var um sölu Róberts á Adalvo til EQT.
Fjárfestingafélag Róberts er jafnframt beint og óbeint með um 40 prósenta hlut í samheitalyfjafyrirtækinu Alvogen Pharma í Bandaríkjunum, systurfélag Alvotech, á móti fjárfestingafélögunum Temasek og CVC sem komu inn í hluthafahópinn fyrir hartnær einum áratug. Móðurfélag Alvogen Pharma - Alvogen Lux Holdings – heldur í dag meðal annars á um þrjátíu prósenta hlut í Alvotech.
Stjórnendur og ráðgjafar Alvogen í Bandaríkjunum eru núna að vinna í því að selja félagið og væntingar standa til þess að það geti klárast síðar á þessu ári. Samkvæmt heimildum Innherja er í þeim mögulegu viðskiptum heildarvirði Alvogen (e. enterprise value) metið á um 2,1 milljarð dala, en að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda – sem eru um 900 milljónir dala – hlutafjárvirði félagsins í kringum 1,2 milljarðar dala, jafnvirði um 150 milljarðar króna.
Alvogen US Pharma framleiðir og selur flókin samheitalyf, sem meðal annars eru notuð til meðferðar við krabbameini, hjarta-, öndunar-, tauga og meltingarsjúkdómum. Félagið á og rekur eina lyfjaverksmiðju í Norwich, New York fylki, sem er um sextán þúsund fermetrar að stærð, en höfuðstöðvar þess eru í New Jersey.
Á árinu 2024 var áætlað að velta Alvogen hefði verið um 930 milljónir dala en hagnaður félagsins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) um 480 milljónir dala.
Fyrr á þessu ári kláraði Alvogen Pharma langþráða endurfjármögnun á lánum samheitalyfjafélagsins upp á ríflega 670 milljónir dala. Annars vegar var um að ræða 553 milljóna dala lán á gjalddaga snemma í nóvember 2028 og hins vegar 120 milljóna dala lán á gjalddaga 1. mars á árinu 2029. Meðalkjör á lánveitingunni jafngilda 9,8 prósenta álagi ofan á SOFR – það hefur tekið við sem vaxtaviðmið af LIBOR – en vaxtaálagið getur lækkað ef rekstrarafkoma Alvogen Pharma í Bandaríkjunum batnar á næstu árum.
Þeir sem stóðu að baki lánveitingunni til Alvogen Pharma voru bandarískir stofnanafjárfestar sem sérhæfa sig í fjárfestingum í heilsu- og lyfjageiranum, einkum sjóðirnir Centerbridge Partners og Blue Torch Capital.
Til viðbótar fékk Alvogen framlengingu á 240 milljóna dala lánalínu (eignatryggð fjármögnun, ABL) á gjalddaga í maí 2028.