Sport

Djoko­vic í undanúr­slit í fjór­tánda sinn

Siggeir Ævarsson skrifar
Novak Djokovic er ekki dauður úr öllum æðum enn.
Novak Djokovic er ekki dauður úr öllum æðum enn. Vísir/Getty

Novak Djokovic tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum Wimbledon mótsins með sigri á hinum ítalska Flavio Cobolli sem lét Djokovic hafa töluvert fyrir hlutunum.

Djokovic setti met með þessu sigri en þetta verður í 14. sinn sem hann leikur í undanúrslitum mótsins, einu sinni oftar en Roger Federer. Þar mætir hann öðrum Ítala, Jannik Sinner, sem er efstur á heimslistanum um þessar mundir.

Fari svo að Djokovic nái alla leið í úrslit og vinni mótið verður það 25. stóri titill hans á ferlinum en til þess þarf hann þá að byrja á því að jafna sig eftir að hafa runnið til í grasinu í einvíginu í dag.

„Þetta var andstyggileg bylta en þetta gerist þegar þú spilar á grasi. Þetta gerðist á óheppilegum tíma en mér tókst einhvern veginn að klára leikinn. Ég mun fara yfir þetta með sjúkraþjálfaranum mínum og vonandi verð ég orðinn góður eftir tvo daga.“ - Sagði hinn 38 ára Djokovic eftir sigurinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×