Erlent

Öllu flugi til og frá næst­stærstu borg Frakk­lands af­lýst

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Reyk leggur yfir íbúðahverfi í Marseille.
Reyk leggur yfir íbúðahverfi í Marseille. AP

Slökkvilið í Frakklandi hafa í dag barist við mikla skógarelda sem loga í útjaðri Marseille, næststærstu borgar Frakklands. Öllu flugi til og frá borginni hefur verið aflýst. 

Í umfjöllun Guardian segir að yfir sjö hundruð slökkviliðsmenn hjálpist nú að við að ráða niðurlögum eldanna, sem kviknuðu í mikilli hitabylgju og dreifðu úr sér þegar hvessti rækilega. 

Samkvæmt upplýsingum frá viðbragðsaðilum hafa slökkviliðsmenn ekki enn náð fullri stjórn á útbreiðslu eldanna. Bruno Retailleau innviðaráðherra Frakklands hefur ráðlagt íbúum í borginni að halda sig innandyra og um 450 manns hafa rýmt heimili sín. Aska og reykur frá eldunum hefur borist alla leið inn í miðbæ Marseille.

Slökkviliðsmenn hafa átt í fullu fangi með að ná stjórn á útbreiðslu eldsins. EPA

Líkt og fyrr segir hefur öllum flugferðum til og frá flugvellinum í Marseille verið aflýst. Flugvöllurinn er næststærsti svæðisflugvöllur í Frakklandi og tekur við nærri ellefu milljónum farþega árlega.

Þá hefur talsvert rask orðið á samgöngum, lestarferðum hefur verið aflýst og nokkrum hraðbrautum hefur verið lokað. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×