Innlent

Gæsluvarðhaldsfangar dúsa í eingangrun vegna pláss­leysis

Árni Sæberg skrifar
Gæsluvarðhaldsfangar eru nú vistaðir í venjulegum fangaklefum.
Gæsluvarðhaldsfangar eru nú vistaðir í venjulegum fangaklefum. Vísir/Arnar

Stjórn Fangavarðafélags Ísland hefur lýst yfir þungum áhyggjum sínum af ofnýtingu fangelsa landsins. Dæmi eru um að fangar sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald án takmarkanna þurfi að gista í einangrunarklefum til lengri tíma vegna plássleysis.

Í yfirlýsingu stjórnarinnar segir að síðastliðnar vikur hafi öll fangelsi verið yfirfull og yfirvöld brugðið á það ráð að geyma gæsluvarðhaldsfanga á lögreglustöðvum dögum saman á meðan beðið er eftir plássi fyrir þá í fangelsunum. 

Slík fullnýting á klefaplássi sé til þess fallin að skapa óvissu og óöryggi í rekstri fangelsanna þar sem torvelt sé að flytja fanga milli staða og sveigjanleiki enginn til að bregðast við óvæntum uppákomum. Dæmi séu um að fangar sem úrskurðaðir hafa verið í gæsluvarðhald án takmarkanna þurfi að gista í einangrunarklefum til lengri tíma vegna plássleysis. 

Ástand þetta bitni ekki einungis á yfirkeyrðu starfsfólki fangelsanna heldur einnig öllum fangahópnum, sem líði fyrir skerta þjónustu, athygli og eftirlit. Á meðan svo gott sem öll laus klefapláss fara í að hýsa gæsluvarðhaldsfanga geti Fangelsismálastofnun ekki kallað inn fanga til að fullnusta dóma og líkur á því að refsidómar dæmdra einstaklinga fyrnist aukist.

„Stjórn FVFÍ skorar á stjórnvöld að bregðast við þessu fordæmalausa ástandi í fangelsiskerfinu svo hægt sé að tryggja öryggi og eðlilega starfsemi í fangelsum landsins.“


Tengdar fréttir

Ís­land geti orðið fyrir­myndarríki í fangelsis­málum

Ísland hefur alla burði til að geta orðið fyrirmyndaríki í heiminum með innleiðingu á áfallamiðaðri nálgun í fangelsismálum. Þetta segir framkvæmdastjóri Compassion Prison Project sem hefur heimsótt öll fjögur fangelsi landsins.

Munu geta aðgreint fanga eftir alvarleika brota í nýju fangelsi

Ríkisstjórnin samþykkti í síðustu viku tillögu dómsmálaráðherra um að ráðast í byggingu öryggisfangelsis að Stóra Hrauni. Gert er ráð fyrir að í fyrsta áfanga verði byggð rými fyrir 92 fanga og er áætlaður kostnaður við hann 17,8 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×