Lífið

Lands­liðs­hetjur elta drauminn til Ólafs­víkur

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Helena Ólafsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir flytja til Ólafsvíkur á næstunni.
Helena Ólafsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir flytja til Ólafsvíkur á næstunni. Skjáskot/Instagram

Knattspyrnukempurnar Helena Ólafsdóttir og Guðlaug Jónsdóttir flytja á næstunni vestur til Ólafsvíkur á Snæfellsnesi. Helena segir að þær hafi langað að prófa búa á landsbyggðinni og það sé hollt að prófa eitthvað nýtt áður en maður verður of gamall.

„Það sem stendur til er eiginlega bara að breyta til. Prófa eitthvað nýtt. Þetta er eitthvað sem okkur hefur langað að gera í nokkurn tíma,“ segir Helena.

Helena og Guðlaug voru burðarstólpar í sigursælu liði KR á sínum tíma og spiluðu saman með íslenska landsliðinu. Þær hafa líka unnið saman við þjálfun utan vallar.

„Svo bara fundum við húsið sem okkur langaði í og við létum það ráða för, svo kom þessi vinna,  þannig við ákváðum að láta húsið leiða okkur áfram,“ segir Helena.

Helena var ráðin íþrótta- og tómstundafulltrúi Grundafjarðarbæjar á dögunum.

„Ég er kennaramenntuð og hef horft til þessarar starfsemi í einhvern tíma. Ég var svo heppin að fá þetta eftir nokkur viðtöl og hlakka til að prófa eitthvað nýtt.“

Höfðu lengi augastað á nýja húsinu

Hún segir að þær hafi horft lengi á húsið sem þær keyptu í Ólafsvík og þeim hafi litist mjög vel á þetta allt saman. Ólafsvík sé þægilega stutt frá bænum.

Fyrstu skref verði að koma sér inn í nýja starfið í Grundarfirði.

„Núna ætla ég bara að njóta og fara í kyrrðina fyrir vestan. Ætla bara að koma mér í nýtt starf. Gulla, hún verður að vinna á höfninni í Ólafsvík, á Hellissandi og Rifi. Hún er í sumarstarfi þar svo kemur annað í ljós.“

„Við mætum þessu með opnum huga og hún er spennt fyrir því. Þetta er eitthvað sem ekkert allir þora.“

Helena hefur einnig gert garðinn frægan í umfjöllun um Bestu deild kvenna á Stöð 2 sport, þar sem hún hefur umsjón með þættinum Bestu mörkin.

Til stendur að hún haldi áfram með þáttinn eftir flutningana.

„Jájá ég verð áfram þar og þeir vita það í Grundarfirði. Mér finnst það rosalega gaman og langar ekkert að stoppa þar,“ segir Helena.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.