Íslenski boltinn

Þeir bestu (8.-7. sæti): Markamaskínur frá Dal­vík og Dan­mörku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 8 og 7.
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 8 og 7. grafík/sara

Hér er farið yfir þá leikmenn sem enduðu í 8. og 7. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í fótbolta frá 1992.

8. Atli Viðar Björnsson

  • Lið: FH
  • Staða: Framherji
  • Fæðingarár: 1980
  • Íslandsmeistari: 2004, 2005, 2006, 2008, 2009, 2012, 2015, 2016
  • Bikarmeistari: 2010
  • Leikir: 264
  • Mörk: 113
  • Stoðsendingar: 35
  • Fjórum sinnum í liði ársins
  • Gullskór: 2013
  • Silfurskór: 2009
  • Bronsskór: 2010

Logi Ólafsson á mikið í árangri FH á þessari öld en hann reisti grunninn sem smiðurinn sjálfur, Ólafur Jóhannesson, byggði svo meistaralega ofan á. Þegar Logi tók við FH fyrir tímabilið 2010 fékk hann sem frægt er orðið Heimi Guðjónsson en einnig Frey Bjarnason, Ólaf Adolfsson og Jón Þorgrím Stefánsson. Fyrir næsta tímabil sótti hann síðan tvítugan Dalvíking sem átti heldur betur eftir að setja mark sitt (blikk, blikk) á sögu FH og sögu efstu deildar.

Atli Viðar Björnsson skoraði 113 mörk í efstu deild, ekkert úr vítaspyrnu.vísir/bára

Atli Viðar Björnsson skoraði 113 mörk í efstu deild og er einn sex í hundrað marka klúbbnum. En ferill hans í efstu deild fór ekki á alvöru flug fyrr en hann var 28 ára. Atli var mikið meiddur, í harðri samkeppni við frabæra framherja á borð við Allan Borgvardt og sumarið 2007 var hann meira að segja lánaður til Fjölnis í næstefstu deild.

Þegar Heimir tók við þjálfun FH fyrir tímabilið 2008 urðu hins vegar vatnaskil á ferli Atla. Hann var krýndur aðalframherji liðsins og stóð svo sannarlega undir því. Næstu sex ár voru rosaleg hjá Dalvíkingnum. Hann fór fimm sinnum yfir tíu mörkin þar af fjögur ár í röð sem enginn annar hefur afrekað, gerði alls 67 deildarmörk og varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.

Steven Lennon tók við af Atla sem aðalframherji FH um mitt tímabil 2014 en hann fann samt leið til að verða að liði. Atli skoraði samtals fimmtán mörk 2015 og 2016 þrátt fyrir fáar mínútur og bætti tveimur Íslandsmeistaratitlum í safnið. Alls urðu þeir átta en Atli er sá eini sem hefur verið í öllum Íslandsmeistaraliðum FH. Níu stórir titlar, hundrað marka klúbburinn, sigurmarkið gegn Keflavík 2008 og þrír markaskór. Helvíti gott bara.

7. Patrick Pedersen

  • Lið: Valur
  • Staða: Framherji
  • Fæðingarár: 1991
  • Íslandsmeistari: 2017, 2018, 2020
  • Bikarmeistari: 2015
  • Leikir: 196
  • Mörk: 122
  • Stoðsendingar: 42
  • Leikmaður ársins: 2018
  • Þrisvar sinnum í liði ársins
  • Gullskór: 2015, 2017
  • Silfurskór: 2020
  • Bronsskór: 2024

Hvað svo sem gengur á hjá Val hefur alltaf verið hægt að ganga að einu vísu síðasta rúma áratuginn; Patrick Pedersen skorar og það mikið.

Patrick Pedersen hefur fimm sinnum farið yfir tíu marka múrinn á tímabili, einn átta sem hafa afrekað það. vísir/daníel

Þegar danski framherjinn hefur spilað tíu leiki eða fleiri hefur hann aðeins einu sinni skorað minna en átta mörk. Pedersen hefur hann fimm sinnum rofið tíu marka múrinn og tvisvar sinnum orðið markakóngur. Hann komst í hundrað marka klúbbinn í fyrra og það er ekki spurning hvort heldur hvenær hann slær markametið í efstu deild. Ekki er ólíklegt að það náist á þessu tímabili.

Pedersen hefur ekki gengið neitt sérstaklega í sínum stuttu stoppum utan Íslands og hefur aðeins skorað eitt mark í tuttugu Evrópuleikjum. En hér heima er í sínum þægindaramma, gríðarlega áreiðanlegur og ótrúlega stöðugur. Og gefur ekkert eftir. Í fyrra skoraði Pedersen sautján mörk sem er jöfnun á hans besta markatímabili í deildinni. Og það kæmi ekkert á óvart ef hann myndi toppa þennan markaárángur í sumar.

Pedersen er ekki bara einn sá besti í að klára færin sín af þeim leikmönnum sem hafa spilað hér á landi. Hann er líka frábær uppspilspunktur, einstaklega góður að fá boltann í fætur með bakið í markið og annað hvort skila boltanum til baka eða snúa og þræða samherja sína í gegn.


Tengdar fréttir

Þeir bestu: Fylgt úr hlaði

Vísir gerðist stórhuga og ákvað að setja saman lista yfir sextíu bestu leikmenn efstu deildar karla frá 1992. Listinn yfir þessa sextíu leikmenn birtist á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×