Veður

Á­fram sól og hlýtt í veðri

Atli Ísleifsson skrifar
Búast má við svipuðu veðri áfram á morgun.
Búast má við svipuðu veðri áfram á morgun. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægri breytilegri átt eða hafgolu í dag. Víða verður léttskýjað og hlýtt í veðri, en sums staðar þoka við ströndina norðan- og vestanlands og mun svalara.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að hiti verði 10 til 22 stig yfir daginn, hlýjast inn til landsins.

„Það er nærri kyrrstætt háþrýstisvæði yfir landinu og því má búast við svipuðu veðri áfram á morgun, þokubökkum úti við sjóinn en annars léttskýjuðu.

Á fimmtudag nálgast lægð væntanlega úr suðvestri. Þá er spáð suðaustan kalda með rigningu vestantil seinnipartinn. Áfram bjart að mestu og hlýtt á austanverðu landinu, en þar á síðan að þykkna upp um kvöldið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 15.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða léttskýjað, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 8 til 20 stig, svalast í þokulofti.

Á fimmtudag: Vaxandi suðaustanátt vestantil, 8-15 og fer að rigna síðdegis. Hægari vindur og bjart um landið austanvert, en þykknar upp um kvöldið. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á föstudag: Suðaustan- og austanátt með rigningu eða súld, en úrkomulítið norðan heiða fram á kvöld. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast norðaustantil.

Á laugardag: Austlæg átt og rigning með köflum, hiti breytist lítið.

Á sunnudag: Austanátt með rigningu suðaustanlands, en annars skýjað með köflum og stöku skúrir vestantil. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á Vesturlandi.

Á mánudag: Norðaustanátt og sums staðar smáskúrir, kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×