Innlent

Hundur drapst af völdum hitaslags á höfuð­borgar­svæðinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hundur af gerðinni pug en myndin tengist fréttinni ekki beint.
Hundur af gerðinni pug en myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Hund­ur fékk hita­slag og dó á höfuðborg­ar­svæðinu í gær og endaði annar á dýraspítala hætt kominn. Fjöldi hunda hefur sloppið af heimilum sínum og týnst í dag vegna sólarþyrstra eiganda sem hafa skilið eftir opið út.

Sjálf­boðaliðasam­tök­in Dýrfinna vöktu at­hygli á hundinum sem dó og hættunum sem fylgja mikilli sól á Face­book í dag. Þar kom fram að tveir hundar hefðu farið á dýraspítala í gær vegna hitaslags, annar þeirra dó.

Eygló Anna Ottesen, sjálf­boðaliði hjá Dýrfinnu, sagði í samtali við Vísi ekki vitað hvort hund­ur­inn sem dó hafi verið skil­inn eft­ir inni í bíl eða verið úti þegar hann fékk hitaslagið.

Geta drepist á korteri

Ofhitnun geti gerst hratt hjá hundum og valdið dauða á fimmtán mínútum ef líkamshiti þeirra hækkar um nokkrar gráður.

„Við þekkjum þetta ekki hérna heima, þess vegna erum við að vara við þessu. Þá þurfum við aðeins að kveikja á bjöllunum,“ sagði Eygló í samtali við Vísi. 

Passa þurfi sérstaklega upp á hundana því þeir séu ekki eins færir og kettirnir að koma sér í skugga.

Hundar sloppið út í góða veðrinu

 Góða veðrið í dag hafði líka annars konar áhrif.

„Það er endalaust af hundum búið að týnast í dag af því að fólk er að lofta út og er úti í sólbaði,“ sagði Eygló. Dýrfinna hafi fengið fjölda símhringinga og tilkynninga um hunda sem sluppu af því dyr voru skildar eftir opnar.

Eygló brýnir fyrir fólki að gera ráðstafanir fyrir dýr sín eins og sig sjálft þegar hitinn er svona mikill. Þá bendir hún hunda­eig­end­um á að halda þeim í skugg­an­um í dag, hafa nóg af vatni fyr­ir dýr­in séu þau úti og kæla hund­ana reglu­lega.

Þá vek­ur Dýrfinna at­hygli fólks á því að dýra­spítal­inn Ani­mal­ía í Grafar­holti sé op­inn all­an sól­ar­hring­inn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×