Erlent

Ís­lenskur far­þegi í bíl­slysi þar sem barn lést

Jón Þór Stefánsson skrifar
Áreksturinn mun hafa orðið á eyjunni Lombok í Indónesíu.
Áreksturinn mun hafa orðið á eyjunni Lombok í Indónesíu. Getty

Íslenskur ferðamaður í Indónesíu var farþegi í bíl sem lenti í bílslysi sem varð til þess að fimm ára gamall drengur lést. Greint er frá þessu í indónesískum fjölmiðlum.

Þar segir að íslenski ferðamaðurinn, kona á þrítugsaldri, hafi, ásamt skoskum ferðamanni, verið í bílferð um fjallaveg á austurhluta eyjunnar Lombok þann 13. maí síðastliðinn.

Bíll þeirra hafi lent á mótorhjóli sem kom úr gagnstæðri átt. Hjólinu hafi verið ekið af karlmanni, en eiginkona hans og fimm ára sonur þeirra voru einnig á hjólinu. Sonurinn sagður hafa verið fluttur á sjúkrahús, en úrskurðaður látinn skömmu eftir komu hans þangað. Þá eru foreldrar drengsins sögð hafa hlotið alvarleg meiðsli.

Íslendingurinn og Skotinn eru bæði sögð hafa verið flutt á sjúkrahús með minni háttar meiðsli.

Ökumaður bílsins mun hafa verið handtekinn vegna málsins. Haft er eftir lögreglu að grunur sé um að hann hafi ekki verið að veita akstrinum fulla athygli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×