Lífið

Krókódíllinn úr Happy Gilmore allur

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Vertu sæll, Morris. Við munum öll sakna þín,“ segir Adam Sandler um krókódílinn.
„Vertu sæll, Morris. Við munum öll sakna þín,“ segir Adam Sandler um krókódílinn.

Krókódíllinn Morris, sem er þekktastur fyrir rullu sína í gamanmyndinni goðsagnakenndu Happy Gilmore, er dauður. Talið er að hann hafi verið um það bil áttræður.

Langur og farsæll kvikmyndaferill krókódílsins hófst árið 1975, eftir að honum hafði verið bjargað úr ólöglegu gæludýrahaldi í Los Angeles. Auk frammistöðunnar í Happy Gilmore kom Morris fyrir í kvikmyndum á borð við Interview with the Vampire, Dr Dolittle 2, og Blues Brothers 2000.

Hann settist í helgan stein frá kvikmyndagerð árið 2006 og dvaldi á sérstöku verndarsvæði krókódíla í Colorado síðustu árin.

Nákvæmur aldur Morris lá ekki fyrir, en samkvæmt aldursgreiningu, sem byggði á rannsóknum á tönnum og skinni var hann um það bil áttatíu ára gamall.

Tekin hefur verið ákvörðun um að Morris verði uppstoppaður.

Kvikmyndastjarnan Adam Sandler, sem fór með hlutverk titilpersónunnar í Happy Gilmore, skrifaði minningargrein um krókódílinn á samfélagsmiðla.

„Vertu sæll, Morris. Við munum öll sakna þín. Þú gast verið erfiður í samskiptum við leikstjóra, förðunarfólk, búningaliðið – og í raun alla með útlimi – en ég veit að þú gerðir það með hag kvikmyndarinnar í huga. Daginn sem þú neitaðir að koma úr vagninum þínum nema við myndum gefa þér fjörutíu kálhausa kenndir þú mér mikilvæga lexíu: Aldrei gefa eftir í listsköpun þinni,“ segir í minningargrein Sandlers.

Framhaldsmynd, sem mun bera heitið Happy Gilmore 2, er væntanleg í næstkomandi júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.