Viðskipti erlent

Reka for­stjóra danska lyfjarisans sem malar gull á Ozempic

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvað hefurðu gert fyrir mig nýlega? Lars Fruergaard Jørgensen var rekinn sem forstjóri Novo Nordisk þrátt fyrir að það hafi orðið verðmætasta fyrirtæki Evrópu í fyrra undir hans stjórn.
Hvað hefurðu gert fyrir mig nýlega? Lars Fruergaard Jørgensen var rekinn sem forstjóri Novo Nordisk þrátt fyrir að það hafi orðið verðmætasta fyrirtæki Evrópu í fyrra undir hans stjórn. Vísir/EPA

Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk, eitt verðmætasta fyrirtæki Evrópu, tilkynnti í dag að það hefði rekið forstjóra sinn í skugga vaxandi samkeppni. Í tíð forstjórans hefur hagnaður fyrirtækisins nærri þrefaldast þökk sé þyngdarstjórnunar- og sykursýkislyfja þess.

Lars Fruergaard Jørgensen hefur stýrt Novo Nordisk undanfarin átta ár. Á þeim tíma hafa lyfin Ozempic og Wegovy malað fyrirtækinu gull. Sala, hagnaður og hlutabréfaverð í danska fyrirtækinu hefur nærri því þrefaldast. Fyrirtækið var um tíma það verðmætasta í Evrópu í fyrra.

Hlutabréfaverð hefur hins vegar fallið síðasta árið vegna aukinnar samkeppni, að sögn evrópska blaðsins Politico. Þá hafa tilraunir með næstu kynslóð lyfja fyrirtækisins ekki borið tilætlaðan árangur. Fyrir nokkrum dögum lækkaði fyrirtækið sölu- og hagnaðarspár sínar í fyrsta skipti frá því að Wegovy kom á markað fyrir fjórum árum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu í dag segir að stjórn og Lars Fruergaard Jørgensen, forstjóri, hafi komist að „sameiginlegri ákvörðun“ um að hann léti af störfum. Vísaði fyrirtækið til þróunar hlutabréfaverðs frá því um mitt ár í fyrra og áskorana á markaði. Verðið er 32 prósentum lægra nú en fyrir ári og 59 prósentum lægra en þegar það náði hámarki sínu samkvæmt Reuters.

Ákvörðun stjórnarinnar er sögð hafa komið greinendum og fjárfestum á óvart. Reuters segir þá ekki sannfærða um að skipta hafi þurft Jørgensen út. Novo Nordisk hafi fram að þessu sýnt þolinmæði með stjórnendum sínum.

„Manni finnst bara eins og það hafi eitthvað farið verulega úrskeiðis hér,“ segir Carsten Lonborg Madsen, greinandi hjá Danske Bank við Reuters.


Tengdar fréttir

Novo Nordisk orðið verðmætasta fyrirtæki Evrópu

Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk hefur hagnast um rúmlega tólf hundruð milljarða íslenskra króna það sem af er ári. Þessi methagnaður einn og sér er ástæða þess að hagvöxtur í Danmörku er jákvæður í stað þess að vera neikvæður, en fyrirtækið er nú talið verðmætasta fyrirtæki Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×